Skip to main content

„Námið leikur í höndunum á manni þegar áhuginn er til staðar"

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. okt 2015 10:20Uppfært 19. okt 2015 10:23

leikskolanemar webFjarnám nýtur sífellt vaxandi vinsælda og eru fjölmargir Austfirðingar sem stunda nám frá Háskólanum á Akureyri í gegnum fjarnámssetur Austurbrúar.



Þær Linda Hrönn Ármannsdóttir, Aleksandra Edel (Ola) og Hafdís Bára Bjarnadóttir bættust í þann hóp þegar þær hófu nám í diplómanámi í leikskólafræðum í haust. Um fullt tveggja ára nám er að ræða, 120 einingar og kennt í staðnámi og fjarnámi. Þeir sem velja þá námsleið munu öðlast starfsheitið aðstoðarleikskólakennari.

Þær Linda, Hafdís og Ola starfa allar á leikskóla, Linda og Ola á Lyngholti á Reyðarfirði og Hafdís á Kærabæ á Fáskrúðsfirði.

Linda hefur unnið á Lyngholti í fimm ár. Hún er með stúdentspróf og er einnig menntaður leikskólaliði.

Ola hefur starfað á Lyngholti í níu ár. Hún er frá Póllandi en hefur verið búsett á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni í 10 ár. Hún hefur bæði lokið garðyrkju- og ferðamálafræði frá pólskum háskóla.

Hafdís er aldurshöfðinginn í hópnum, 53 ára gömul. Hún hefur lengst af starfað við verslunarstörf en einnig við leikskóla og hóf störf á Kærabæ síðastliðið vor.

Hafdís er ekki óvön því að vera í námi en hún hefur bæði setið í öldungadeild Menntaskólans á Egilsstöðum og kláraði þriggja ára nám þaðan og útskrifaðist sem félagsliði árið 2007.


Maður hefur gott af því að takast á við krefjandi verkefni

Linda segir það sé erfitt á köflum að koma öllu heim og saman, vinnunni, náminu og fjölskyldunni, en hún er með tvö ung börn. „Námið var kynnt á þann veg að hægt væri að stunda það með 100% vinnu. Sú er ekki raunin því það eru fjarfundir á vinnutíma. Við erum með góða vinnuveitendur sem leyfa okkur að fara í þá tíma. Persónulega finnst mér skrítið að vera í fjarnámi þar sem er skyldumæting í tíma. Það sagði svosem enginn að þetta yrði auðvelt því nám er vinna og maður hefur gott af því að takast á við krefjandi verkefni."


Mat lífið upp á nýtt í kjölfar veikinda

Hafdís segir það alltaf hafa blundað í sér að fara í sambærilegt nám og þetta.

„Mér fannst tækifærið vera núna þar sem ég var farin að vinna í leikskóla og þetta stóð mér til boða. Líf mitt tók u-beygju í fyrravetur þegar ég greindist með krabbamein. Ég var mjög heppin að greinast fljótt, en eins og flestir sem lenda í þessum sporum settist ég niður og hugsaði líf mitt upp á nýtt. Ég ákvað að taka beygjuna með og breyta algerlega til. Af hverju þá ekki að nýta þetta frábæra námstækifæri líka?"

Aðspurð hvort Hafdís upplifi sig fullorðna innan hópsins segir hún:

„Ég verð að viðurkenna að mér leið pínulítið þannig í fyrstu staðlotunni á Akureyri. En það bráði fljótt af mér þar sem allir tóku mér sem jafningja, auk þess sem þarna er fólk á öllum aldri þannig að ég sting engan veginn í stúf. Svo peppa mig allir upp, fjölskylda, vinir, vinnufélagar og samnemendur.

Mér þykir þetta allt saman svo skemmtilegt og það er frábær hvatning að finna allan þennan stuðning. Það eru vissulega meiri kröfur um mætingu en við bjuggumst við. En, þetta er annað fyrir mig en stelpurnar, þó svo ég sé bæði í fullri vinnu og fullu námi þá er ég með uppkomin börn og hef því nægan tíma til þess að sinna skólanum."


Fagmálið erfitt

Ola tekur í sama streng og Hafdís. „Mig hafði alltaf langað í skóla aftur eftir að ég fluttist til Íslands en hef alltaf verið hrædd vegna tungumálaörðugleika. Þegar þetta nám bauðst og ég vissi að fleiri héðan ætluðu að sækja um sá ég tækifæri því það væri betra fyrir mig að fylgja hóp en að vera ein."

Hvernig hefur henni gengið? „Það var enginn búinn að plata mig með því að þetta yrði létt. Mér gengur ágætlega en finnst íslenskan erfið, það er allt annar orðaforði í náminu en ég nota í daglegu lífi. Ég þarf því mikið að vera á „Google translate" og leita mér að sambærilegu efni á pólsku. Það hefur skipt öllu máli að vera í þessum frábæra hópi en ég er viss um að annars hefði ég hætt eftir fyrstu lotuna. Ég meira að segja hugsaði um það en Linda er svo mikill engill að hún sagði að það væri ekki í boði, ég gæti í fyrsta lagi hætt um áramót."


Skemmtilegt í staðlotunum

Það er allt annað að fara í háskólanám þegar einstaklingar gera það af eigin frumkvæði og af einskærum áhuga.

„Það er ekki hægt að líkja því saman að vera í skóla þegar maður er þar af einskærum áhuga, ekki kvöð. Nú er verkefnavinnan að komast á fullt en námið leikur í höndunum á manni þegar áhuginn er til staðar. Það er líka frábært að fara í loturnar norður, það er afskaplega gaman hjá okkur þá," segir Hafdís.

„Ég er sammála," segir Ola. „Það er allt annað að vera í skóla þegar maður vill það sjálfur. Það er gott að fara í loturnar, það er bæði auðveldara og skemmtilegra að vera staðnemi en fjarnemi. Ég hélt reyndar að það væri meira um hópverkefni, einstaklingsverkefnin eru mun erfiðari fyrir mig. Reyndar er það jákvætt hve fá próf eru á hverri önn, við erum núna í fimm fögum en förum aðeins í tvö lokapróf. Það er allt annað og námsefnið situr betur eftir þegar það er metið gegnum verkefnaskil og umræðutíma."