Leitaði hindurvitna fyrir austan: Lagarfljótsormurinn er frægasta skrímsli Íslands
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. okt 2015 13:43 • Uppfært 19. okt 2015 13:45
Stórleikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson stýrir þættinum Hindurvitni sem hefur göngu sína á Stöð 2 í kvöld en þar er fjallað um þjóðsögur og þjóðtrú. Lagarfljótsormurinn og borgfirskir álfar leika verða fyrirferðamikil í fyrstu þáttunum.
„Fyrsti þátturinn í kvöld verður um skrímsli og þar ætlum við að rekja sögu Lagarfljótsormsins, frægasta skrímslis Íslands. Hann hefur í það minnsta fengið mest áhorf á YouTube," segir Þorvaldur Davíð.
Þættirnir verða alls sex talsins og sá fyrsti verður sendur út klukkan 20:30 í kvöld. Fjallað verður um fyrirbæri í íslenskri þjóðtrú og þjóðsögum sem Þorvaldur stefnir á að matreiða á skemmtilegan hátt.
„Yngri kynslóðirnar í dag eru kannski ekki í jafn miklum tengslum við menningararfinn og kynslóðirnar á undan, þær til dæmis lesa minna.
Ég vona hins vegar til að þetta verði þættir sem fjölskyldan geti horft á saman og rætt saman um þættina eftir á þannig þeir kveiki meiri áhuga."
Í kvöld verður farið yfir sögu ormsins, rætt við Hjört Kjerúlf og fjallað um störf hinnar víðfrægu sannleiksnefndar en af öðrum skrímslum kvöldsins má nefna Þorgeirsbola og Skeljaskrímslið.
Í næstu viku verður farið á Borgarfjörð þar sem álfar verða aðalumfjöllunarefnið. „Ég er ættaður af Héraði og Fáskrúðsfirði þannig mér fannst nauðsynlegt að fara austur," útskýrir Þorvaldur.
Handritið skrifaði hann ásamt Erik Sördal og framleiðir þættina sjálfur ásamt konu sinni Hrafntinnu Viktoríu Karlsdóttur í gegnum fyrirtækið Ísaland Pictures. Þetta er fyrsta framleiðsluverkefnið þeirra.
„Við erum búin að leggja mikið í þættina og erum ánægð og stolt með þá. Það var alltaf markmið okkar að búa til fræðandi og skemmtilegt sjónvarpsefni og vonandi ýtir þetta undir að kynslóðirnar líti til baka, því eins og John F. Kennedy sagði: „Þegar framtíð skal byggja skal að fortíð hyggja."