Óformlegt kaffispjall á þriðjudagskvöldum í vetur
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. okt 2015 11:06 • Uppfært 20. okt 2015 11:06
Íbúasamtök Eskifjarðar verða með opið hús vikulega í vetur, á þriðjudagskvöldum í Dalshúsi milli klukkan 20:00 og 22:00.
Markmið fundanna er að gefa bæjarbúum tækifæri á að líta við og ræða málin við talsmenn íbúasamtakanna. Kristinn Þór Jónsson, formaður þeirra, segir fundina verða létt og óformlegt kaffispjall.
„Við viljum auðvelda íbúum að koma og ræða málin við stjórnina, koma með hugmyndir, ræða framtíð Eskifjarðar eða hvað annað sem þá langar að koma á framfæri.
Íbúasamtökin eru hugsuð til þess að vinna að framfara- og hagsmunamálum íbúa Eskifjarðar og fá sýn þeirra á það hvernig þeir vilja sá Eskifjörð í framtíðinni."
Eftir hvern fund munu meðlimir íbúasamtakanna setja megin atriði inn á Facebook-síðu sína þar sem þeim sem ekki komust gefst kostur á að tjá sig og jafnvel koma með hugmyndir fyrir næstu fundi. Það er von íbúasamtakanna að íbúar Eskifjarðar nýti sér þennan vettvang til að koma sínum hugmyndum á framfæri.