„Geðveikt gaman að fá að punta upp á nýtt"
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. okt 2015 13:14 • Uppfært 20. okt 2015 13:15
Verslunin Gullabúið á Seyðisfirði er að flytja í nýtt rými á næstu vikum, en þar fæst falleg hönnun, húsmunir og húsgögn, í bland við alls konar gersemar með fortíð.
Þær Halldóra Malin Pétursdóttir og Margrét Guðjónsdóttir eru eigendur verslunarinnar. Austurfrétt leit við þar sem Halldóra Malin var í málningargallanum að standsetja nýja rýmið en Margrét stóð vaktina hinu megin götunnar.
„Ástæða þess að við erum að flytja er sú að Maggý (Margrét Guðjónsdóttir) og maðurinn hennar ætla að opna „deluxe-gistiheimili" í vor, í húsinu þar sem Gullabúið er núna. Það hús er merkilegt fyrir margar sakir, það er rúmlega 100 ára gamalt og byggt af föður Nínu Tryggvadóttur.
Gullabúið flytur ekki langt, aðeins yfir götuna í lítið og fallegt hús sem hýsti verslunina Bjólfsbæ og síðar Draumhús."
Þær stöllur tóku við hráu rými sem þær hafa verið að standsetja síðustu vikur. „Við erum búnar að reisa einn vegg og mála. Við erum mjög spenntar, það er geðveikt gaman að fá að punta upp á nýtt. Við áætlum að flytja á næstu tveimur vikum þannig að jólatörnin verður tekin í nýju búðinni.
Aðal spurningin þessa dagana er hvað stóra Marilyn Monroe plagatið á að vera á nýja staðnum. Við Maggý þekktumst ekkert áður en við fórum saman í verslunarrekstur og okkar eini sameiginlegi grunnur var botnlaus áhugi okkar á Marilyn Monroe. Hún verður því að fá að vera með áfram, enda partur af okkur."
Halldóra Malin segir reksturinn hafa gengið vonum framar. „Fyrst ætluðum við bara að vera með "popup-verslun" yfir sumartímann. Svo fannst okkur þetta svo sjúklega skemmtilegt auk þess sem þetta gengur alltaf betur og betur.
Sumarið er auðvitað mesti annatíminn en við erum einnig með opið yfir vetrartímann en þá getum við unnið að endurbótum, nú eða flutt heila búð."
Nýjar vörur streyma í búðina og jóladótið er á leiðinni. Gullabúið er því sannkölluð gullkista fyrir þá sem vilja færa heimilinu smá skvettu af hamingju og upplifa um leið, huggulega fortíðarstemmingu í einstakri verslun.