Bókin um ferðalagið á mótorhjólinu komin út: Eins og að fá barnið sitt í hendurnar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. okt 2015 10:57 • Uppfært 21. okt 2015 10:59
Sumarið 2014 lögðu Unnur Sveinsdóttir og Högni Páll Harðarson upp í fimm mánaða ferðalag frá heimabæ sínum Fáskrúðsfirði til Ulaanbaatar, höfuðborgar Mongólíu, á mótorhjólum. Í gærkvöldi fögnuðu þau útgáfu bókarinnar Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu þar sem þau segja frá ferðalaginu.
„Þetta er eins og að fá barnið sitt í hendurnar. Maður vill helst ekki skila bókinni," sögðu þau við Austurfrétt á útgáfuhófinu sem haldið var á Bókakaffi í Fellabæ í gærkvöldi.
Ferðalagið hófst við landganginn að Norrænu í apríl í fyrra og þau komu heim í lok september eftir fimm mánaða ferðalag. Á þeim tíma heimsóttu þau 20 lönd en farið var austur að Rússlandi inn í Mongólíu og þaðan til baka í mið-Asíu, norður fyrir Kaspíahaf inn í Tyrkland og þaðan heim á leið til vesturs í gegnum austur Evrópu.
Þau héldu úti ferðasögu á Facebook og viðbrögðin við henni urðu kveikjan að bókinni. „Við fengum hvatningu um að gefa söguna út á bók," segir Unnur.
Högni Páll segir að við gerð bókarinnar hafi tekið við nýtt ferðalag. „Það var líka stórkostlegt en það að gefa út bók er nýtt fyrir okkur. Það hefur ekki síst verið gaman að vinna með öllu þessu fagfólki sem við eigum á Austurland og tengist bókagerð."
Það var samt nokkur spenningur í loftinu í gærkvöldi því bókin kom ekki austur fyrr en með síðasta flugi og á gólfinu í Bókakaffi voru kassar merktir „áríðandi." Þeir skiluðu sér ekki fyrr en hálftími var búinn af hófinu og því vöru Högni og Unnur að fletta bókinni í fyrsta skipti á meðan þau töluðu við Austurfrétt.
„Það var búið að segja okkur að útgáfuhóf hafi verið haldin án þess að bókin væri til staðar. Það hefði samt verið frekar klaufalegt."