Mr. McFly býr á Hótel Framtíð í dag
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. okt 2015 13:32 • Uppfært 21. okt 2015 14:03
Marty McFly hefur bæst í hóp vina Íslands og reyndar Austurlands ef mark er takandi á símaskrá Já.is. Hótelstjórinn segir sérstakan heiður og ánægju að hafa þennan þekkta gest á hótelinu.
McFly er aðalpersónan úr Aftur til framtíðar þríleiknum. Í annarri myndinni ferðast hann til framtíðarinnar og dúkkar upp þann 21. október 2015.
Af því tilefni er haldið upp á Aftur til framtíðar daginn víða um heim. Já.is tekur þátt í gamninu en í leitarvélinni á netinu er McFly boðinn velkominn til framtíðarinnar.
Þegar nafnið McFly er slegið inn í leitarvélina kemur upp Marty McFly sem er skráður á Hótel Framtíð, Vogalandi 4 á Djúpavogi.
„Já, hann býr hjá okkur í dag. Hann er með hótelherbergi hér," segir Júlía Hrönn Rafnsdóttir, starfsmaður hótelsins.
Hún segir stjórnendur Já hafa sent fyrirspurn um hvort hótelið væri til í að vera með í gamninu. Vel hafi þótt fara á að McFly byggi á Framtíðinni.
„Við erum búin að bíða spennt eftir að einhver hringi," sagði hún en hringing Austurfréttar var sú fyrsta.
Þórir Stefánsson, hótelstjóri, segist hafa orðið afar glaður þegar hringt var í hann frá Já í morgun. „Þetta er meðal minna uppáhaldsmynda. Ég var í sjöunda bekk þegar fyrsta myndin kom og þá var farin sérstök ferð með allan bekkinn, 20 krakka, til Reykjavíkur þar sem við sáum reyndar fleiri myndir.
Ég var því mjög glaður þegar þeir hringdu. Þeir óttuðust að það yrði eitthvert ónæði en þetta væri bara einn dagur. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé hægt að skrá McFly á Framtíð – til framtíðar!"
Mynd: Hótel Framtíð