„Vantar bara skóg og nokkra vini, annars er þetta eins og paradís"

kollaleira kirkja webVið Kollaleiru í Reyðarfirði rís nú glæsileg kaþólsk kirkja sem áætlað er að verði tilbúin um páska.

Starfrækt hefur verið munkaklaustur á Kollaleiru frá árinu 2007, þar sem þeir Peter Kováeik, Peter Fintor og David Tencer frá Slóveníu hafa dvalið allan tímann. David er þó nýfluttur til Reykjavíkur þar sem hann verður vígður sem biskup kaþólsku kirkjunnar þann 31. október næstkomandi.

Aðspurður um ástæðu þess að verið sé að reisa kirkjuna, sem er bjálkahús, segir Peter:

„Kapellan okkar er orðin of lítil, aðeins fyrir 25 manns en sú nýja verður með sæti fyrir 40 manns. Við erum með pólska messu á laugardögum og þá koma yfirleitt um 25 og kringum 20 manns í sunnudagsmessurnar sem fara fram á íslensku. Á stórhátíðum er gamla kapellan allt of lítil og fólk þarf iðulega að standa úti á gangi. Miðpunktur kaþólsku sóknarinnar er hér á Kollaleiru en sóknarsvæðið okkar er frá Skaftafelli til Bakkafjarðar," segir Peter.


Íslenskar byggingareglur aðrar en við eigum að venjast

Byggingaframkvæmdir hófust í sumar og áætlað er að vígja kirkjuna sama dag og fermt verður.

„Við fengum efnið að gjöf frá vinum okkar í Slóveníu og byggingameistararnir, sem einnig eru þaðan, vinna verkið í sjálfboðavinnu. Mikið af okkar eignum eru gjafir frá góðu fólki."

Peter segir byggingaferlið ekki hafa gengið þrautalaust fyrir sig. „Þetta hefur reynst okkur erfitt vegna þess að íslenskar byggingareglur eru allt aðrar en við eigum að venjast úr okkar heimalandi. Við skiljum ekki af hverju við þurfum að tala við byggingafulltrúa og fengum til dæmis ekki leyfi til þess að steypa plötuna en þó fyrir því að byggja kirkjuna. Það verður virkilega ánægjulegt þegar þetta er búið."


Fer heim á tveggja til þriggja ára fresti

Peter kom fyrst til Íslands árið 2005 til þess að læra tungumálið. Tveimur árum seinna kom hann til þess að setjast að ásamt hinum tveimur.

„Þetta er okkar trúboðssvæði – við vorum að leita að stað til þess að byggja upp trúboðastarf. Við leituðum auk Íslands á Grænlandi, Georgíu, Mongólíu, Albaníu og Noregi. Ísland vann og þess vegna erum við hér. Mér líkar mjög vel, það vantar bara skóg og nokkra vini, annars er þetta eins og paradís."

Peter segir þá hafa leyfi til þess að heimsækja fjölskyldu sína einu sinni á ári, en hann fari sjálfur ekki svo oft, frekar á tveggja til þriggja ára fresti. Foreldrar hans og bróðir hafa komið og heimsótt hann.


Var 23 ára þegar hann svaraði kalli Guðs

Hvað skyldi verða til þess að einstaklingur taki þá ákvörðun að gerast munkur?

„Guð kallaði á mig þegar ég var 23 ára gamall, eða öllu heldur þá svaraði ég kallinu. Ég heyrði rödd inni í mér sem sagði: „Ef þú vilt, máttu fylgja mér." Þegar ég hugsa til baka var hann búinn að vera að tala til mín án þess að ég væri tilbúinn að hlusta. Ég var nokkrar vikur eða mánuði að átta mig á þessu, hugsa og spyrja fólk í kringum mig hvað þetta eiginlega merkti. Það er afar mismunandi eftir bræðrum hvernig við upplifum þessa köllun. Peter sem er hérna með mér lýsti sinni á þann hátt að hann hefði skyndilega orðið mjög ástfanginn, eins og ást við fyrstu sýn."

Eftir að Peter náði áttum fór hann af stað til þess að leita að því í hvaða átt hann vildi fara.

„Ég fann sex reglur og ferðaðist um og heimsótti þeirra bækistöðvar þar sem ég fékk lesefni til þess að bera þær saman og finna út hvað hentaði mér best. Ég fann að Kapúsínareglan hentaði mér best og því valdi ég hana. Allar reglurnar heyra undir Bava en áherslur innan hverrar og einnar eru mismunandi. Ég á að iðrast og strengdi þess heit að vera hlýðinn, fátækur og lifa hreinu lífi. Ég lærði til prests innan reglunnar eftir að ég gekk í hana, en ég fékk einnig köllun til þess."


Fjölskyldan ekki sátt í byrjun

Peter átti kærustu þegar hann fékk sína köllun. „Það var hreint samband, en Guð kallaði mig frá henni. Það er möguleiki að ganga í regluna þótt maður eigi fjölskyldu en þá verða börnin að vera uppkomin og búið að tryggja þau vel út í lífið efnislega. Svo þarf að fá leyfi frá biskup og konunni, sem þarf þá einnig að ganga í klaustur. Langflestir sem ganga í regluna sem ungir, hreinir menn."

Engir munkar eru í fjölskyldu Peters og segir hann að foreldrar hans hafi ekki tekið fregnunum vel í fyrstu. „Yngri bróðir minn var að læra til sóknarprests og þau treystu á mig til þess að halda áfram nafni fjölskyldunnar, þess vegna varð faðir minn ekki mjög ánægður, en það hefur allt lagast."


Nóg að gera í klaustrinu

Þrátt fyrir að Peter og Peter búi aðeins tveir á Kollaleiru er þar mjög gestkvæmt.

„Vinir okkar koma mikið og hjálpa okkur. „Dagurinn okkar hefst á bænastund og messu. Eftir morgunmat skiptum við með okkur verkum, annar okkar sér um eldhúsið og að taka til hádegismatinn meðan hinn undirbýr predikanir eða kennslu fyrir börn og fullorðna. Aftur er bænastund fyrir hádegismat og að honum loknum höfum við nóg að gera, annaðhvort í kennslu eða öðru. Þriðja bænastund dagsins er milli klukkan fimm og sex auk þess sem þá er Rósakrans, sem er bæn til Maríu meyjar, beðin á talnabandi. Eftir hana spilum við blak, skreppum í sund eða eitthvað annað. Síðasta bænastundin er klukkan tíu á kvöldin.

Hefur Peter einhvern tímann séð eftir því að fylgja kallinu? „Ég er búinn að vera í reglunni í rúm 20 ár núna. Það ganga allir í gegnum kreppur annað slagið. Stundum upplifi ég leiða í örskamma stund, að þetta sé ekki það sem ég vil, en þá heyri ég strax í Guði og hugsunin líður hjá."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.