„Við bjóðum ekki upp á neinar töfralausnir"
![solveig og fjola web](/images/stories/news/2015/solveig_og_fjola_web.jpg)
Solveig er jógakennari og Fjóla einkaþjálfari. „Fyrirlesturinn sem við ferðumst með er mestmegnis úr okkar reynslubanka og hvað hefur gagnast okkur best í okkar vegferð í átt að bættri heilsu," segir Solveig.
„Fyrirlesturinn er tvíþættur. Fjóla ræðir fyrst um árangursrík skref að settu marki með hreyfingu og góðu mataræði. Hvað áhrif pressa samfélagsins er oft mikil og niðurbrjótandi. Ég fjalla svo um hugarfarið, hvernig við eflum jákvæða hugsun, sjálfstraustið, hve öndun er mikilvæg og hvernig við stillum forritin okkar upp á nýtt. Svo ræði ég um núvitund og slökun."
Solveig og Fjóla voru á Djúpavogi í gær. „Þetta er annar fyrirlesturinn sem við höldum saman, sá fyrsti var á Eskifirði í fyrra. Við höfum hug á að fara með hann um firðina.
Fyrirlesturinn tekur um tvo og hálfan tíma og þar inni er opið fyrir spjall og spurningar. Við bjóðum ekki upp á neinar töfralausnir því þær eru ekki til en hugsanlega geta okkar punktar hjálpað einhverjum að skerpa markmiðin sín í átt að vellíðan og betri heilsu. Okkur finnst þetta hrikalega skemmtilegt og erum þakklátar öllum þeim sem hafa áhuga á að koma til okkar á fræðslukvöld."