Leiðindi í loftinu: Dyflinnarfarar bíða eftir fluginu

thota egs 14042015 0057 webHátt í 200 Austfirðingar sem áttu bókað með beinu flugi til Dyflinnar í morgun bíða enn eftir að komast af stað. Ekkert hefur verið hægt að fljúga til Egilsstaða í morgun.

„Við áttum að vera í skoðunarferð um Dublin núna," segir Skúli Björnsson, félagi í karlakórnum Drífanda en kórinn var á leið í árshátíðarferð sína.

Um 180 manns áttu bókað með þotu Icelandair sem átti að fara í loftið frá Egilsstöðum klukkan hálf átta í morgun. Hún og áætlunarflugvél Flugfélags Íslands voru báðar komnar austur en urðu að hverfa frá lendingu vegna ókyrrðar í lofti sem stafar af sterkri suðaustanátt.

„Við vonumst til að þeir öðlist hugrekki til að lenda," segir Skúli. „Menn bíða rólegir, þetta er bara veður."

Það vekur reyndar athygli manna að blankalogn hefur verið á Egilsstöðum í morgun en hvasst er í kring. Fyrst var frestað til klukkan níu, svo til rúmlega ellefu, síðan til klukkan tvö og nýbúið er að setja athugun á klukkan 16:15.

Skúli segist hafa farið heim til sín inn í Hallormsstað þegar ljóst var að flugið frestaðist fram yfir hádegi. Austurglugginn raskaði ró hans þar sem hann var að reyna að leggja sig enda lítið sofið í nótt.

„Ég vona bara að ég þurfi ekki að bíða jafn lengi og síðast þegar ég flaug með Icelandair," segir hann en hann var meðal farþega sem biðu 18 tíma í Kaupmannahöfn fyrir mánuði vegna vélarbilunar.

Kórfélagar höfðu skipulagt fjölbreytta dagskrá í Dyflinni. Til stóð að heimsækja sögustaði í dag en annað kvöld er árshátíð kórsins. Þá stendur til að hafa hátíðarkvöldverð og fara á riverdance-skemmtun.

Á laugardaginn verður væntanlega farið í verslanir og á vinsæla Presley-sýningu um kvöldið. Síðan var planið að kíkja á Guinness-safnið fyrir heimferð á sunnudag.

„Ég vona að við komumst út. Ég hef aldrei áður komið til Dyflinnar og var orðinn spenntur fyrir ferðinni."

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst eru farþegarnir ýmist farnir heim til að bíða eða hafast við á veitingastöðum á Egilsstöðum. Kunnugt er um hóp í sumarbústað á Einarsstöðum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.