Væri til í bónorð í jólagjöf

sigridur eirSigríður Eir Zophaníasdóttir er í yfirheyrslu vikunnar, en hún heldur tónleika með hljómsveit sinni Evu á Kaffi Láru á Seyðisfirði í kvöld.
Austurfrétt greindi frá sveitinni á dögunum, en það má lesa hér.

Sigríður er útskrifuð af sviðshöfundabraut við Listaháskóla Íslands.

„Ég er svo heppin að hafa fengið að starfa við listina frá útskrift, hef unnið sem tónlistarstjóri, aðstoðarleikstjóri, kennari og svo auðvita gítarleikari og söngkona í Hljómsveitinni Evu, auk þess sem ég er dagskrárgerðarkona á Rás2. Síðustu átta mánuði hefur móðurhlutverkið verið mitt aðal starf og trúlega það starf sem ég hef mestan metnað fyrir í lífinu og vona að það breytist ekkert.

Við verðum á Seyðisfirði í kvöld á Kaffi Láru og hlökkum mikið til. Ég elska Seyðisfjörð og er þess vegna spennt fyrir kvöldinu. Við munum spila lög af plötunni okkar Nóg til frammi sem og örugglega einhver ný lög allt eftir stemmningunni."

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Fullt nafn: Sigríður Eir Zophoníasardóttir.

Aldur: 28.

Starf: Tónlistar- og dagskrárgerðarkona.

Maki: Tótla I. Sæmundsdóttir.

Börn: Úlfhildur Katrín Sigríðardóttir.

Hvað er í töskunni þinni? Ég er voða lítið með tösku, nota bara vasana í staðinn og þar er bara þetta hefðbundna – lyklar, sími, veski og kannski penni ef ég er í stuði.

Hvernig fer skammdegið í þig? Mjög vel. Ég elska þegar það fer að skyggja þá kveiki ég á kertum og á langar morgunstundir. Þá má segja að ég sé gerð til þess að búa á Íslandi. Mér finnst sumarið alveg passlega langt og sumarnæturnar dásamlegar en ég er alveg farin að bíða eftir myrkrinu þegar það loksins mætir á haustin.

Hver er þinn helsti kostur? Geðprýði.

Hver er þinn helsti ókostur? Óþolinmæði og kannski stjórnsemi.

Vínill eða geisladiskur? Vínill.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Sko ég held mig langi ekki að hitta neinn úr mannkynsögunni. Eða engann sem mér dettur í hug núna. Mig langar kannski bara frekar að hitta Adelle úr kvenkynssögunni og syngja með henni dúett.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika og skemmtilegheit.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Að ryksuga. Mér finnst eins og það séu mörg verk. Taka fram ryksugu, setja í samband, færa til dót. Þetta er bara eitthvað svo mikið.

Draumastaður í heiminum? Heima.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Það var mjög margt og mismunandi eftir tímabilum. Ég man efitr geðlækna tímabili sem var kannski lengst en svo var það einhvern tíma trúður, flugfreyja, íþróttakona og svo þetta klassíska söngkona og leikari.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Hmm. Ég væri til í að ég gæti útrýmt fórdómum og heimsku bara með hugaraflinu. Það væri mjög gott.

Duldir hæfileikar? Ég er rosalega góð í að raða og skipuleggja og í svona innanhúss hönnunn. Svo er ég rosalega góð með börn, ég hef stundum verið kölluð barnahvíslarinn.

Hvernig finnst þér best að verja laugardagskvöldi? Heima hjá mér með stelpunum mínum tveimur, elda góðan mat, kveika á kertum og góðri tónlist og enda svo kannski á því að horfa á góða heimildamynd.

Hvernig líta kósífötin þín út? Það eru „alladís buxur", ullarsokkar, hlýrabolur og hneppt kaðlapeysa.

Hvað er á jólagjafaóskalistanum þínum? Ullarsokkar og góð bók. Svo væri gaman að fá góðan kjól eða jafnvel bónorð. Nei ég segi bara svona.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Sko þær eru margar. Vigdís Finnbogadóttir, mamma og Vala vinkona, Lína Langsokkur og Ronja, Litli Prinsinn og Vigdís Gríms, Elísabet Jökulsdóttir og allar heimsins villikellingar og langamma mín Elín, engin í heiminum hefur verið jafn ríkur af gjafmildi og hún.

Hvað bræðir þig? Börn, tónlist og ástin held ég bara almennt og bara alls konar. Það þarf mjög lítið til að bræða mig. Um daginn fékk ég svo góða og kærleiksríka þjónustu í fiskbúðinni á horninu að ég fór grátandi heim, meyr yfir fegurð heimsins. Ég fer líka oft að á gráta þegar ég horfi á hópíþróttir, það er svo fallegt þegar einhver vinnur, sem gerist yfirleitt alltaf og fólkið fagnar saman, þá klökna ég iðulega. Það er eitthvað svo magnað í samkenndina.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Pizza.

Hvernig drekkur þú kaffið þitt? Sterkt með dass af mjólk.

Hvernig leggjast tónleikarnir í þig? Rosalega vel, ég er spennt að spila fyrir Seyðfirðinga og aðra nærstadda og vona að þetta verði fallegt kvöld.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.