„Ákvað að fylgja fyrstu tilfinningu"
Söngkonan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir frá Borgarfirði eystra er einn þátttakandi í The Voice Ísland.The Voice Ísland eru raunveruleikaþættir að erlendri fyrirmynd þar sem hæfileikaríkir söngvarar fá tækifæri til að sanna sig og slá í gegn. Dómarar og þjálfarar eru þau Helgi Björnsson, Svala Björgvins, Unnsteinn Manuel og Salka Sól. Sérstaða þáttanna er sú að þau snúa baki í keppendur meðan þau syngja í áheyrnarprufunum.
Aldís Fjóla segist hafa sungið frá því hún man eftir sér og var 17 ára þegar hún hóf söngnám hjá Keith Reed í tónskólanum á Egilsstöðum. Hún lærði síðar djasssöng í Reykjavík og flutti svo til Danmerkur þar sem hún útskrifaðist sem Advanced soloist frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn árið 2007. Í dag er hún söngkona hljómsveitarinnar Borgfjörð.
Valdi „Team Sölku"
Hvernig kom það til að Aldís Fjóla ákvað að freista gæfunnar og taka þátt í The Voice Ísland?
„Ég var hvött til þess og á síðasta degi skráningar sló ég til. Mér finnst þetta rosalega gaman og það er alltaf gott að fá staðfestingu og hvatningu frá öðrum um að maður geti sungið. Allt fólkið sem kemur að þættinum er dásamlegt og maður fær klapp og knús í hverju skrefi.
Ég valdi „Team Sölku" og sá hópur er alveg dásamlegur og stútfullur af hæfileikafólki. Ég var aðeins búin að mynda mér skoðun að velja Sölku af því hún er svo dugleg að koma sér á framfæri og ég gæti lært það af henni. Ég hinsvegar fór alveg í hnút þegar ég átti að velja og var valið á milli hennar og Svölu en ég ákvað að fylgja fyrstu tilfinningu.
Mér fannst mjög þægilegt að dómararnir sneru baki í mig, fannst það minna stress en að hafa öll þessi augu á mér og ég gat því algjörlega hugsað um mig og minn flutning.
Ég sé fyrir mér að þetta komi manni enn frekar á framfæri sem er ekki auðvelt í dag. Í þættinum kynnist maður líka fullt af nýju fólki og skapar þannig nýtt tengslanet fyrir næstu skref eftir. Aðalatriðið er samt er að njóta þess að standa á þessu glæsilega sviði og syngja úr sér lungun."
Bæði spennt og stressuð
Nú er áheyrnarprufunum lokið og hver þjálfari kominn með fullskipað átta manna lið og „einvígin" hafin, en þar keppa þátttakendur í hverju liði innbyrðis og eftir standa fjórir í hverju liði.
„Það er mun meira stress og mjög skrýtið, þar sem það er góður andi í öllu liðinu og leiðinlegt að það þurfi að stía okkur í sundur strax. En þetta er nú einu sinni keppni. Ég er spennt og stressuð yfir þeim áfanga, ég reyni bara að anda og vera ég sjálf og vona að það dugi til."