„Hér fæðist hvert listaverkið á fætur öðru"
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. nóv 2015 18:00 • Uppfært 03. nóv 2015 18:01
Myndlistarfélag Fljótsdalshéraðs fagnar senn 25 ára afmæli sínu. Félagið hefur allt frá stofnun gengist fyrir myndlistarnámskeiðum og einu þeirra er nýlokið.
„Við ætlum að reyna að halda upp á 25 ára afmælið á næsta ári, við höfum bara ekki enn ákveðið nákvæmlega hvernig," segir Ásdís Jóhannsdóttir, formaður félagsins.
Námskeiðin hafa verið kjarninn í starfsemi félagsins þar sem reynt hefur verið að halda eitt á ári. Þuríður Sigurðardóttir kom austur nýverið og kenndi nemendum á aldrinum 11-90 ára í myndmennta Egilsstaðaskóla yfir helgi.
Þá hittust félagar árum saman á laugardagsmorgnum í Menntaskólanum á Egilsstöðum og máluðu saman. Þeir fundir duttu hins vegar upp fyrir eftir að þeir stjórnarmenn sem höfðu leitt félagið nánast frá upphafi hættu fyrir þremur árum.
Ellefu einstaklingar voru á námskeiðinu hjá Þuríði og var Ásdís ánægð með afrakstur helgarinnar. „Hér hefur fæðst hvert listaverkið á fætur öðru."