Læra um galdrana í myndlistinni: Hún er ekki bara föst á veggnum

skaftfell eyglo hardar eyborg hanna gavin 0029 webMyndlistarkennarinn Karlotta Blöndal hóf í dag heimsóknir sínar í austfirska skóla en hún fer þangað á vegum Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi. Áherslan í fræðsluverkefni Skaftfells í ár byggir meðal annars á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur sem eru til sýnis í miðstöðinni.

„Í ár er áherslan á að rannsaka liti, form, ljós og litablöndun, ekki bara út frá hefðbundinni blöndun heldur líka ljóslitablöndun," segir Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, fræðslufulltrúi Skaftfells.

Skaftfell hefur staðið fyrir fræðsluverkefnum í austfirskum grunnskólum frá árinu 2008 og að þessu sinni er kennari sendur á milli skóla á svæðinu. Áherslan er á miðstig skólanna og að þessu sinni eru það einkum nemendur í sjöunda bekk sem njóta heimsókna hennar.

Verkefnið tengist nýrri sýningu sem opnuð var í Skaftfelli á laugardag. Þar er blandað saman verkum Eyborgar Guðmundsdóttur en hún lést um miðjan áttunda áratuginn og Eygló Harðardóttur en Eygló kom að uppbyggingu námskeiðanna enda hafa hún og Karlotta kennt saman í Myndlistarskóla Reykjavíkur.

„Það er áskorun fyrir myndlmenntakennara að kenna myndmennt því það er engin bók til að fara eftir. Kennarinn verður að vera virkur í sköpun til að finna upp verkefnið," útskýrir Eygló.

Sterk áhrif Op-listamanna má finna í verkum Eyborgar sem bregður gjarnan á leik með einföld en áhrifarík form í verkum sínum.

„Myndlistin er ekki bara föst á veggnum. Hún er það sem gerist inni í auganu og höfðinu þegar maður horfir. Ef maður róar sig og horfir þá fer maður oft að sjá nýja hluti í verkunum. Það er ýmiss konar galdur í gangi," bætir Eygló við.

„Krakkarnir kynnast hvernig litirnir hegða sér en skoða líka þessi geómetrísku form í tengslum við lífræn form," segir Hanna.

Heimsóknirnar hófust í dag og standa til 13. nóvember. Hanna segir skólana á svæðinu viljuga til að vera með og fá Karlottu í heimsókn.

Fræðsluefni Skaftfells hefur líka verið gert aðgengilegt á heimasíðu miðstöðvarinnar. „Við viljum gera efnið okkar aðgengilegt og deila með öðrum. Við viljum að kennarar geti nýtt sér verkefnið áfram."

Eygló bendir á að hægt sé að nota þekkinguna víða. „Það eru kenndar aðferðir og leiðir. Þetta eru praktískir galdrar, leikir að ljósi og efni sem hægt að vinna áfram með og til dæmis nýta við að setja upp næstu árshátíð."

Lærdómurinn felst líka í að lesa hugsun listamannsins. „Það þarf svolítið að læra að horfa á myndlist. Þetta er eins og í stærðfræðinni, það er erfitt að skilja hana ef þú hefur ekki undirstöðuatriðin."

Eygló og Hanna við eitt af verkum Eyborgar í Skaftfelli. Mynd: GG

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.