Algjör tilviljun að velja sama útgáfudag fyrir plötuna og mamma
![bjort sigfinns fura nov15 web](/images/stories/news/folk/bjort_sigfinns_fura_nov15_web.jpg)
Platan sem skartar ekki öðru nafni en listamannsins kom út á mánudag, 2. nóvember. Fyrir 17 árum gaf Aðalheiður Borgþórsdóttir, móðir Bjartar, út plötuna Brothætt.
„Þetta var algjör tilviljun. Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en hún sagði mér frá þessu í gær. Mamma áttaði sig heldur ekki á þessu sjálf fyrr en móðursystir hennar fór að tala um dánardægur langömmu. Þá fattaði mamma að þetta væri sami dagurinn," segir Björt.
Platan inniheldur níu frumsamin lög með tilfinningaþrungnu rafpoppi. Janus Rasmussen og Hallur Jónsson úr Bloodgroup útsetja lögin en þar sem Björt býr í Danmörku eru danskir hljóðfæraleikarar með henni á tónleikum.
Platan kemur síðan út á heimsvísu í janúar og verður fylgt eftir með tónleikum, bæði á Íslandi og erlendis, sem byrja á útgáfutónleikum í Danmörku.
Tónleikaferðin er reyndar þegar byrjuð þar sem Fura kemur fram á fimm tónleikum í tengslum við Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina sem hófst í gær. Tvennir tónleikar tilheyra formlegri dagskrá hátíðarinnar og voru þeir fyrri í Kaldalóni í Hörpu í gærkvöldi.
„Tónleikarnir gengu mjög vel en það var sértakt að vera í þessum sal með svo líflega tónlist þar sem áhorfendur sitja og horfa niður á listamennina. Það er samt gott að vera búin með fyrstu tónleikana til að losa um fyrirspennuna."
En það er meira í gangi hjá Björt sem syngur lagið Feel Like Fallin' sem spilað hefur verið yfir 100.000 sinnum á Spotify, oftast í Mexíkóborg samkvæmt tölum fyrirtækisins. Það er eftir danska tónlistarmanninn Volmer sem óskaði eftir samstarfi við Björt fyrir tveimur árum.
„Þessar tölur eru súrrealískar fyrir mér. Þær koma mér verulega á óvart og ég er spennt að sjá hvert framhaldið verður, bæði með lagið og okkar samstarf.
Volmer fylgir annarri tónlistarstefnu en ég. Mín er tilraunakenndari en lagið með honum er hreint popplag."
Volmer þessi er á samningi hjá Sony útgáfunni sem ræður miklu um framhald lagsins. „Þetta er stærra og öðruvísi batterí," segir Björt sem gefur sína plötu út hjá dönsku fyrirtæki.
Hún býr þar og vinnur að tónlist sinni um þessar mundir en er alin upp á Seyðisfirði og er meðal stofnenda LungA-listahátíðarinnar og lýðháskólans.
Hún sér hins vegar fram á annir á Airwaves. Tvennir tónleikar eru á dagskránni sem tilheyra ekki hinni formlegu hátíð en síðan kemur hún fram á hennar vegum annað kvöld.