„Mig langar að heyra hvað fólkinu finnst fallegt"

Krista finnska skartgripir 0003 webFinnski listamaðurinn Krista Ruohonen, sem dvelur í gestastofu Skriðuklausturs í nóvember, leitar eftir viðhorfum Austfirðinga á skartgripalínu sem hún hefur hannað út frá hugmyndum sínum um Ísland. Hún segist vilja fá álit almennings á listinni þannig hægt sé að þróa listaverk sem bæði fjöldanum og listamanninum líki.

„Mig langar til að hanna skartgripi sem fá fólk til að tala og spyrja spurninga eins og hvernig best sé að bera þá, af hverju þeir séu svona í laginu eða úr þessu efni," segir Krista.

Með sér austur kom hún með sjö skartgripi sem byggja á víkingahefðum og hrauni. „Hugmynd mín um Ísland var að hér væri fögur náttúra og hún er þemað í þessum gripum.

Ísland var numið af víkingum og þeirra áhrifa gætir enn í íslenskum skartgripum og mynstrum. Ég hugsaði með mér að hraunið væri alls staðar og það væri kannski eitthvað sem fólk hefði áhuga á."

Krista á að baki sjö ára nám í skartgripahönnun í listaskólum. „Ég var umkringd fólki sem talaði bara um listir og mér fannst gripirnir mínir vera undir slíkum áhrifum. Ég fékk þá tilfinningu að almenningur skildi þá ekki og fór að hugsa um hvernig ég gæti gert þá aðgengilegri.

Listamenn vinna oft verk sem þá langar til að gera eða þykir falleg en spá ekki hvort aðrir skilji þau eða lítist á.

Vandamálið í dag er að listin er svo aðskilin daglegu lífi fólks. Hún er geymd á söfnum en skartgripir eru eitthvað fólk getur klæðst við daglegar athafnir.

Listin þarf í sjálfu sér ekki að vera flókin. Hún má líka vera skemmtileg. Þess vegna langar mig að komast í snertingu við fólk og fá álit þess á gripunum."

Krista var með munina í Húsi handanna í síðustu viku og er ánægð með viðbrögðin sem hún fékk þar. Hana langar hins vegar að heyra í fleirum og hefur því sett upp netkönnun. Svörin nýtir hún svo við áframhaldandi þróun.

„Það er langt þróunarferli að baki hverjum grip. Nú hef ég séð hvernig Ísland lítur út í raun og ég hef séð að það sem ég ímyndaði mér á ekki við þannig ég þarf að breyta hlutunum.

Mig langar að heyra hvað fólkinu hvað finnst fallegt. Í næstu umferð bæti ég inn viðhorfum fólksins og skráset þróunina. Kannski verður útkoman eitthvað sem öllum líkar."

Könnunina má taka hér. 

Nánar má kynnast Kristu og verkefnum hennar hér.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.