Vilja ekki mæta liði Fljótsdalshéraðs fyrr en í úrslitum
Lið Fjarðabyggð bætti stigamet vetrarins í Útsvari þegar það sigraði Vestmanneyjabæ í fyrstu viðureign liðsins á föstudagskvöld, en það lauk keppni með 97 stig.Eins og Austurfrétt greindi frá hér, er liðið algerlega endurnýjað frá því í fyrra og er skipað þeim Davíð Þór Jónssyni, Hákoni Ásgrímssyni og Heiðu Dögg Liljudóttur.
„Þetta gekk betur en við þorðum að vona. Við vorum nokkuð heppin með spurningar og áttum nokkur góð gisk. Ég er ekki viss um að okkur hefði gengið eins vel ef við hefðum fengið spuringarnar sem andstæðingar okkar fengu, en allar spurningar eru léttar ef maður veit svörin við þeim," sagði Davíð Þór í samtali við Austurfrétt.
Þeir sem horfðu á þáttinn sáu skemmtilegt atvik þegar Davíð Þór giskaði rétt á ólesna spurningu.
„Já, það var skemmtilegt. Heiða Dögg ýtti of snemma bjölluna eftir að texti úr Snorra Eddu var lesinn. Ekki var búið að bera upp spurninguna, en mér þótti líklegt að verið væri að spyrja um hvar hann birtist og það er í íslenskum vegabréfum, sem reyndist rétt. Þarna kom kannski reynsla mín sem spurningahöfundur af góðum notum."
Við bökkum hvort annað upp
Davíð Þór segir góðan anda ríkja í liðinu og þeim semji mjög vel. „Þekking okkar liggur ekki á sömu sviðum þannig að við bökkum hvort annað upp. Árangur okkar var vissulega góður en það var ákveðin græðgi að velja fimmtán stiga spurningu í lokin, hefði verið gáfulegra að taka fimm stig og ná þannig mögulega að skríða yfir hundrað stigin.
Það virðist vera gott áhorf á þáttinn almennt, en þeir fáu sem ég hef hitt síðan ég kom heim hafa allir óskað mér til hamingju með sigurinn. Það er gaman að vera nýfluttur á svæðið og geta gefið eitthvað til baka með þessum hætti. Aðallega held ég þó að þetta hafi verið skemmtilegur þáttur, það var afar góð stemmning í liðinu og salnum, en það held ég hafi skilað sér sem gott sjónvarpsefni."
Þrjár viðureignir eftir eru eftir af umferðinni og eftir hana kemur í ljós hvaða liði Fjarðabyggð mætir í framhaldinu.
„Nú er ljóst að Fljótsdalshérað kemst áfram sem eitt að fjórum stigahæstu tapliðinum. Ég vona bara að við drögumst ekki saman, í það minnsta ekki fyrr en í úrslitaþættinum," segir Davíð Þór.