Aukinn áhugi Austfirðinga á Evrópusamstarfi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. nóv 2015 15:47 • Uppfært 09. nóv 2015 15:48
Námskeið í mótun verkefna og styrkumsókna í æskulýðssjóð Evrópusambandsins verður haldið á Egilsstöðum á föstudag. Kynningarfulltrúi sambandsins segir kipp hafa orðið í umsóknum um slík verkefni af Austfjörðum.
„Við höfum orðið vör við mikinn áhuga að austan og viljum styðja við þá þróun," segir Hjörtur Ágústsson, kynningarfulltrúi Evrópu unga fólksins.
Skrifstofan hefur umsjón með úthlutun úr æskulýðshluta Erasmus+ áætlunarinnar sem nær yfir mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun sambandsins. Árlega hefur hún 250 milljónir króna til úthlutunar en ekki hefur tekist að koma þeim öllum út.
LungA-lýðháskólinn er stærsta verkefnið sem fengið hefur styrki frá Evrópu unga fólksins en fleiri sýna Evrópusamstarfi áhuga. „Umsóknum að austan hefur fjölgað og við eigum von á fleirum.
Þar eru orðin frekar mörg verkefni miðað við fjölda fólks þannig þar virðist vera suðupottur þar sem mikið er að gerast," segir Hjörtur.
Á námskeiðinu verður farið yfir helstu atriði sem skipta máli við mótun verkefnis í ungmennaskiptum og skrifa umsóknir í Erasmus+. Það er einkum ætlað með starfsmönnum eða sjálfboðaliðum í starfi með ungu fólki. Eins er ungmennum sem hafa áhuga á þátttöku í ungmennaskiptum velkomið að mæta.
„Við viljum mæta þessum aukna áhuga sem er fyrir austan og þjálfa þá sem eru byrjaðir í verkefnum og hvetja þá áfram sem ekki eru byrjaðir. Það er gott starf í gangi fyrir austan og í áætluninni eru tækifæri sem mörg félög gætu nýtt sér."
Auk Hjartar verður Frímann Sigurðsson leiðbeinandi á námskeiðinu en hann hefur þjálfað á sambærilegum námskeiðum innanlands sem utan. Námskeiðið verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum frá klukkan 12-18 og boðið verður upp á hádegisverð. Skráning fer fram með að senda póst á addasteina[hjá]egilsstadir.is