Einstakt Ísland á uppboði á Hosumarkaði í Neskaupstað
![island hosumarkadur](/images/stories/news/2015/island_hosumarkadur.jpg)
Líknarfélagið Hosurnar í Neskaupstað samanstendur af starfsfólki Sjúkrahússins í Neskaupstað og allur ágóði af starfi þeirra rennur til tækjakaupa.
„Það eina sem við gerum er að baka, prjóna og eyða pening," segir Unnur, en unnið er að markaðnum allt árið, heima og sem meðlimir þess hittast á hverju þriðjudagskvöldi yfir vetrartímann.
„Okkur hefur verið mjög vel tekið og markaðurinn er vel sóttur. Við höfum náð að safna fyrir ýmsum tækjum fyrir sjúkrahúsið, svo sem skoðunarbekkjum og „doppler-tæki" fyrir mæðraverndina.
Það stefnir í flottan og veglegan markað, en auk þess sem við erum að útbúa fáum við einnig fallegt handverk frá fólki sem vill leggja þessu góða málefni lið."
Norðurljósin máluð með „airbrush könnu"
Hlynur Sveinsson er einn þeirra sem gefur handverk á markaðinn um helgina.
„Það er um ár síðan ég hóf framleiðslu á útskornu Íslandi úr áli, með lýsingu á bakvið. Þetta hefur verið nokkuð vinsælt og því langaði mig að gefa eitt slíkt til Hosanna.
Mér fannst að gripurinn yrði að vera einstakur, ekki eins og þeir sem ég er að bjóða til sölu. Konan mín kom þá með þá hugmynd að fallegt væri að setja norðurljós á landið og fékk ég því þúsundþjalasmiðinn og snillinginn Ingvar Ísfeld til að mála norðurljósin á landið. Það gerði hann með pínulítilli sprautukönnu, svokallaðari „airbrush könnu" og kom virkilega vel út hjá honum.
Við ákváðum í sameiningu að gefa allt efni og vinnu til Hosanna. Við vonum svo sannarleg að það fáist sem mest fyrir umrætt land til styrktar þessu frábærta málefni," segir Hlynur.
Hosumarkaður verður haldin í Safnahúsinu Neskaupstað og hefst á fimmtudaginn, þegar opið verður frá 17:00-22:00. Sami opnunartími verður á föstudag, en á laugardaginn verður opið frá 13:00-17:00.