Aðalframleiðandi pizzaosts á landinu
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. nóv 2015 18:53 • Uppfært 10. nóv 2015 18:57
Megnið af þeim osti sem Íslendingar nota á flatbökur sínar er framleiddur hjá Mjólkursamsölunni á Egilsstöðum. Öll sú mjólk sem framleidd er á mjólkurbússvæðinu dugir ekki til framleiðslunnar.
Svæðið nær frá Vopnafirði í norðri að Hala í Suðursveit í suðri. Mjólkurbúið gegnir bæði því hlutverki að safna saman mjólk á svæðinu en þaðan er vörum líka dreift til verslana og annarra kaupenda á svæðinu.
Vörurnar koma frá Akureyri og er skipað á milli bíla á Egilsstöðum. Sömu bílar eru notaðir til að sækja mjólkina og keyra vörurnar. Nýlegur flutningabíll sem fer á Höfn er einnig búinn miklu tankakerfi þótt hann beri það ekki utan á sér.
Á Egilsstöðum hafa menn sérhæft sig í ostagerð, einkum pizzaosts. Þar eru árlega framleidd um 1400 tonn af mozzarella-osti.
Í það þarf um 14 milljónir lítra af mjólk. Reiknað er með að mjólkurstöðin á Egilsstöðum taki í ár á móti um 8 milljónum lítra en það sem upp á vantar kemur að norðan. Að móti eru rúmir 200.000 lítrar af rjóma fluttir norður en rjóminn er aukaafurð sem fellur til við framleiðslu ostanna.
Þar eru einnig framleiddar fleiri afurðir. Stöðin er eini framleiðandi kryddsmjörs á landinu auk þess sem þar er framleiddur ricotta-ostur, sem meðal annars er notaður í ferskt pasta.
Nýlokið er við endurbætur á stöðinni á Egilsstöðum og af því tilefni var Austfirðingum boðið að skoða hana á laugardaginn var. Austurfrétt leit við.


