Telegraph fær ekki nóg af Austurlandi: Ferð í boði í ferðagetraun ársins

Breska stórblaðið Daily Telegraph fær ekki nóg af Austurlandi en fjórðungurinn var nýverið útnefndur þar einn af áhugaverðustu stöðum heimsins til að heimsækja árið 2016. Aðalvinningurinn í ferðagetraun blaðsins er nefnilega ferð austur.


Og það er ekki hlaupið að verðlaunum því fyrst þarf að svara 20 býsna snúnum (en hins vegar vel gúgglan-legum) krossaspurningum.

Eins heppins þátttakanda býður þriggja nátta ferð með bílaleigubíl og beinu flugi frá Gatwick til Egilsstaða á vegum ferðaskrifstofunnar Discover the World.

Blaðið telur síðan áfram upp ýmsa kosti Austurlands til að gera vinninginn sem girnilegastan. Til dæmis megi dást að fegurð Norðfjarðar, ganga eftir ströndinni og skoða sérstakar en glæsilegar steinamyndanir, fara á hestbak eða leigja bát og  renna fyrir fisk.

Einnig sé góð hugmynd að heimsækja Stríðsárasafnið á Reyðarfirði þar sem 3000 breskir hermenn voru í seinna stríði eða Borgarfjörð eystri með sínu fjölskrúðuga fuglalífi eins og lundanum og öllum álfunum.

Daily Telegraph er eitt stærsta dagblað Breta. Það hóf göngu sína um miðja nítjándu öld og kemur í dag út í yfir 400.000 eintökum á dag auk þess sem áætlað er að um tvær milljónir manna heimsæki vef þess daglega.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.