![](/images/stories/news/folk/lara_bjornsdottir_rfj_2015.jpg)
„Ég nenni ekki að vera þessi Tuðhildur Þras“
Áramótaheit eru á allra vörum fyrstu daga nýs árs og Lára Björnsdóttir á Reyðarfirði ein þeirra sem setur sér heit um hver áramót.
„Það eru mörg ár síðan ég byrjaði á þessu, það er svo gott að hafa að einhverju að stefna,“ segir Lára.
Lára segir heitin vera eins misjöfn og þau eru mörg, sumum heldur hún algerlega fyrir sig sjálfa en öðrum deilir hún með fjölskyldu og vinum. Mörg þeirra heita sem hún setti sér í fyrra voru afar huglæg.
Ætlaði að tuða minna árið 2015
„Í fyrra setti ég mér það heit að árið 2015 ætlaði ég að tuða minna um hluti sem skipta ekki máli, eins og „taktu nú upp eftir þig“ og annað í þeim dúr. Auðvitað er sjálfsagt að allir hjálpist að og gangi vel um en hvað er það virkilega sem skiptir máli? Ætla ég að eyða öllu lífinu í að vera stanslaust tuðandi? Alltaf? Það eru hvort sem er allir löngu hættir að hlusta á það. Ég nenni ekki að vera þessi „Tuðhildur Þras“ eins og við í fjölskyldunni segjum oft.“
Lára segist lengi hafa hugsað um þetta en röð atvika varð til þess að hún ákvað að taka sér tak.
„Frænka mín missti dóttur sína, sem var á svipuðum aldri og dóttir mín, auk þess sem ég var búin að horfa upp á fleiri mér tengda missa börnin sín. Þá fannst mér kominn tími til þess að hætta að tuða yfir hlutum sem engu máli skipta og fara frekar að meta lífið betur.
Ég fylgdist með henni í gegnum sorgina og sá að það sem hún var að spá í voru svo sannarlega ekki þessir hlutir. Ef maður vill ná einhverju fram, þarf maður þá ekki bara að skýra skilaboðin frekar, útskýra fyrir fólkinu sínu hvers vegna það er sem maður er að biðja um sömu hlutina aftur og aftur, í stað þess að suða eins og hunangsfluga.“
Lára hafði heitið fyrir sjálfa sig og sagði engum frá því. „Þetta hefur gengið ágætlega og ég hef náð því oftar að hlægja frekar að sjálfri mér en að pirra mig á aðstæðum. Ég er ekki frá því að ég hafi náð að breyta viðmóti mínu „örlítið“, en það er erfitt, ég er ekkert heilög. Það er svo mikilvægt að líta í eigin barm, vera glaður og ánægður með sitt í stað þess að finna að hverju smáatriði sem engu máli skipta.“
Af hverju ekki að heimsækja fólk meðan það er enn á lífi?
Lára setti sér einnig það heit að heimsækja oftar fjölskyldu og vini árið 2015, sérstaklega þá sem búa lengra í burtu.
„Af hverju fara allir í jarðarfarir en heimsækja ekki fólk meðan það er á lífi? Þetta er heit sem ég ræddi við manninn minn og við settum okkur sem sameiginlegt markmið. Við vorum dugleg að fylgja þessu eftir og gáfum okkur meðvitað meiri tíma í heimsóknir í sumar.“
Sumt gekk, annað ekki
Svo var ýmislegt á lista Láru sem ekki gekk eftir. „Ég ætlaði að ganga á „fjöllin fimm“ í Fjarðabyggð í sumar en fór aðeins á Grænafell. Ég ætlaði líka í hjólaferð en það gekk ekki eftir.
Lára setti sér einnig það markmið að minnka streituna í lífi sínu á árinu en fyrir var hún í 100% vinnu sem þjónustustjóri hjá Olís og í námi í Ferðamálafræðum frá Háskólanum á Hólum.
„Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og mikilvægt að huga að henni. Ég var búin að hugsa um það lengi að minnka við mig vinnu og steig skrefið á árinu, sagði upp starfinu og er nú aðeins í 50% vinnu með skólanum og það er algerlega þess virði.“
Í ár hyggst Lára halda ótrauð áfram með listann og hjóla í þau atriði sem ekki kláruðust í fyrra.
„Oft flytjast heitin milli ára og verða langtímamarkmið, eitthvað sem ég ætla mér að gera í framtíðinni. Fyrst og fremst stefni ég þó að því að halda áfram því sem ég hef verið að gera – að sinna náminu mínu, hugsa vel um fjölskylduna, en ég á einmitt lítinn ömmustrák hér á staðnum og það er gott að geta rétt foreldrum hans hjálparhönd og verið með honum.“