„Kjörið tækifæri að mynda góðar samverustundir“
![jolafondur gunna](/images/stories/news/2015/jolafondur_gunna.jpg)
Námskeiðin verða sniðin að áhuga hvers og eins. „Það er mikill hraði í þjóðfélaginu og mig langaði til þess að bjóða upp á stutt og skemmtileg námskeið þar sem fólk er almennt svo upptekið. Hægt er að koma í eitt skipti eða fleiri, allt eftir því hvað fólk hefur áhuga á því að gera mikið," segir Guðrún.
„Það er ýmislegt hægt að gera. Ég býð upp á postulíns- og trémálun, kransagerð, kertagerð eða þá að búa til heiðurshjónin Grýlu og Leppalúða.
Ég vinn mest með efni úr náttúrunni og það leggst yfirleitt mjög vel í þátttakendur, svo vel að fæstir vilja setja eitthvað pjátur með.
„Það búa allir yfir sköpunarkrafti sem ég reyni að virkja hjá hverjum og einum. Hægt er að nýta það sem fólk á heima, eins og diska og skálar undir aðventuskreytingar.
Það er vinsælt að koma í hópum, eins og saumaklúbbum. Einnig getur verið skemmtilegt að taka börnin með, en ég er með ýmis einföld verkefni fyrir þau. Einnig geta foreldrar og börn unnið stærri verkefni saman, en þetta er kjörið tækifæri að mynda góðar samverustundir."
Námskeiðin eru haldin heima hjá Guðrúnu. „Mér þykir notalegt að hafa þetta heima, auk þess sem þar er ég með ógrynni bóka og dæma sem ég get gripið til ef þarf."
Fyrstu námskeiðin verða um helgina, en Guðrún segir mjög auðvelt að semja um tímasetningar eftir því hvað henti hverjum og einum best og hvetur áhugasama til að hafa samband.