Handavinna skjól fyrir stríðni

Sælín Sigurjónsdóttir á Reyðafirði er forfallin handavinnukona og státar af sérstaklega veglegu bókasafni tengdu próni og hekli.


„Bækurnar eru tæplega 500 og ætli blöðin séu ekki í kringum 300," segir Sælín sem veitt fátt skemmtilegra en að sitja við handavinnu.

„Ég hef safnað bókunum ansi lengi, ætli sú fyrsta sé ekki 25 ára gömul, en hinir og þessir senda mér bækur hvaðanæva að úr heiminum. Ég á til dæmis bækur frá Rússlandi og Japan, en þetta finnst mér alveg ægilega spennandi.

Það er mjög misjafnt hve vel ég nýti bækurnar, ég á nokkrar þar sem ég hef prjónað eða heklað hverja einustu uppskrift í, en svo kannski ekki neina úr öðrum.

Það bætist alltaf við safnið, þrátt fyrir að ég sé alltaf að kaupa síðustu bókina," segir Sælín og skellihlær.


Handavinna skjól fyrir stríðni

Sælín segist ekki muna eftir sér öðruvísi en prjónandi á æskuheimili sínu í Jökuldal.

„Mamma prjónaði peysur og svona það sem var svona af betra tægi, en móðursystir mín sokka og vettlinga. Ég var mikið með henni því hún sagði mér endalaust sögur og fór með þulur meðan hún prjónaði, sjálfsagt hef ég lært að prjóna a hvolfi með því að sitja fyrir framan hana, en mamma kenndi mér að fitja upp. Ég prjónaði á sjálfa mig og dúkkurnar mínar.

Mér leiddist í skólanum og var ekki dugleg að læra en öll handavinna lék í höndunum á mér og ég hef sennilega fengið svona mikin áhuga á henni þess vegna. Mér var strítt en mér fannst flott að ég gæti eitthvað betur en krakkarnir sem stríddu mér – ætli handavinnan hafi ekki verið nokkurskonar skjól fyrir stríðninni og hefur svo áfram verið mitt skjól."

Sælín segir handavinnuna hafa hjálpað sér að komast í gegnum veikindi sem hún er að glíma við, en hún greindist með krabbamein árið 2012 og endurgreindist svo aftur núna í september.

„Það skiptir mig hreinlega öllu máli að hafa eitthvað við að vera, ég væri orðin brjáluð ef ég hefði ekki handavinnuna gegnum þennan erfiða tima, en hún gefur mér mikið og hefur róandi áhrif á mig.

Ég hef alltaf prjónað mikið og þegar ég vann fullan dag í frystihúsinu þótti mér gott að prjóna nokkrar umferðir þegar ég kom heim í hádeginu. Eftir það fór ég endurnærð aftur til vinnu.

Suma daga prjóna ég ekki neitt, en allan daginn aðra – ef ég ætti að skjóta á eitthvað myndi ég segja að fjórir til sex tímar færu í handavinnu á dag að meðaltali."

Sælín hefur mest prjónað sjöl að undanförnu, en fyrir kemur að hún tekur að sér að prjóna eina og eina lopapeysu.

„Það er svo mikil sköpun fólgin í því að sjá verkið fæðast. Mér leiðist reyndar alveg óskaplega að ganga frá endunum og stundum langar mig helst að fá mér manneskju í það bara."

Saelin1
Saelin3
Saelin4
Saelin5
Saelin6

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.