„Mér finnst betra að drekka en borða á jólunum"
„Ég er að kafna úr tilhlökkun að komast heim í foreldrahús á Eskifirði um jólin og gæti allt eins sleppt því að halda jól ef ég kæmist ekki þangað"
, segir sjónvarpskokkurinn og Eskfirðingurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, en Austurfrétt þótti tilvalið að fá eins og eina uppskrift frá henni fyrir jólin.
„Mér finnst betra að drekka en borða á jólunum – ekki hafa það eftir mér samt! Það er ákveðin hefð hjá vinahóp mínum að hittast að kvöldi 26. desember, spila, hlæja og sitja að sumbli. Allt í góðu hófi, að sjálfsögðu. Þessi uppskrift er einmitt fyrir spilakvöldin, svona þegar öllum háheilögum hátíðarhöldum er formlega lokið."
Bláberjabjórító
- Rúmlega ½ dl ljóst romm
- 4-6 myntulauf
- 1 límóna (fleiri ef þið viljið sneiða niður út í drykkinn)
- 8-10 bláber (ég nota frosin)
- Fáeinir dropar agavesíróp eða hunang
- Góður bjór (ég mæli með Corona)
Hérna er svipað verklag og við mojitogerð. Ég notast við mortél til þess að hamast dálítið vel á myntulaufunum, límónusafanum, sykrinum og bláberjunum.
Setjum í glas ásamt nokkrum ísmolum og fáeinum dropum af sírópi eða hunangi. Bætum romminu út í og hrærum vel í blöndunni. Fyllum upp í glasið með bjór. Það er fullkomlega leyfilegt að bæta við fleiri bláberjum eða og meiri myntu til skrauts.