Dráttarvélar á Íslandi – Áfram veginn
![drattavelar a islandi](/images/stories/news/2015/drattavelar_a_islandi.jpg)
Á ferðum sínum um landið, sumarið 2015, hittu þau m.a. eldri herramann á Dalvík sem fer allra sinna ferða á Ford 3600.
Í Hippakoti eiga bræður tveir athvarf fyrir sig og sínar vélar og í smáíbúðarhverfinu í Reykjavík má finna nýuppgerðan Bautz.
Á bæ einum í Vatnsdal má finna MF100 línuna og í Svínadal er Zetor í hávegum hafður.
Safnararnir í Seljanesi skipa stóran sess í hugum áhugamanna um dráttarvélar. Loksins náðist í þá alla saman og komum við ekki að tómum kofanum þar.
Nýjasta búvélasafn landsins var opnað með viðhöfn hjá Sigmari í Lindabæ í Skagafirði og fylgst var með þegar gömlum dráttarvélum var ekið hringinn í kringum landið, annars vegar Ferguson vinir og hins vegar hjónin Júlía og Helgi á Farmall Cub.
Í Leiðarhöfn í Vopnafirði er Ferguson búinn að vera í notkun í 62 ár og litið er á gömlu vélarnar sem eru í Svínafelli í Nesjum.
Í Dragasetrinu er Kristján Bjartmarsson að gera upp Centaur frá 1934 sem er í eigu Þjóðminjasafnsins og á Egilsstöðum er Scania Vabis vörubíll nýuppgerður sem bara varð að fá að vera með.
Á disknum má heyra af því hvernig Vigdís í Eyjafirði endurheimti Porche vélina sem faðir hennar keypti fyrir hálfri öld.
Á þessari upptalningu má sjá að þarna kennir ýmissa grasa og flestum tegundum dráttarvéla bregður fyrir við fjölbreyttar aðstæður, en á diskinum eru 20 innslög og 29 viðmælendur.
HS Tókatækni er fyrirtæki Hjalta Stefánssonar og Heiðar Óskar Helgadóttur. Hjalti er landsmönnum að góðu kunnur sem myndatökumaður RÚV-Sjónvarpsins á Austurlandi á árunum 1999 – 2012 þar sem hann sá að mestu leyti um myndatökur og klippingar.
Frá 2012 hefur hann m.a. myndað með Gísla Sigurgeirssyni fyrir þáttinn Glettur á Austurlandi fyrir N4. Heiður Ósk Helgadóttir, einnig kunn af störfum sínum fyrir Sjónvarpið í áratugi, sér um hljóðvinnslu og grafík. Dagskrárgerð disksins er alfarið í þeirra höndum. Sem fyrr er það Jens Kr. Þorsteinsson hjá Jennafilm í Kópavogi sem sér um að koma efninu á diska og fjölföldun þeirra.
Verðið á disknum er 4.000 kr. m/vsk og mun salan fyrst og fremst fara fram í beinni sölu frá framleiðanda með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 471 3898.