„Ég næ upp í allt dótið í efstu hillunni“

Glímukappinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson sigraði í karlaflokki á Fjórðungsmóti Austurlands í glímu á Reyðarfirði milli jóla og nýárs og hampaði þar með Aðalsteinsbikarnum í þriðja sinn. Ásmundur er í yfirheyrslu vikunnar á Austurfrétt.



Ásmundur starfar hjá Alcoa Fjarðaáli en stefnir á að fara í háskólanám í haust. Aðspurður um félagsstörf svarar hann; „Ég er meðlimur í Björgunarsveitinni Ársól og á það til að setja á mig leðurólar og fara að glíma.“

Fullt nafn: Ásmundur Hálfdán Ásmundsson.

Aldur: 21 árs.

Starf: Framleiðslustarfsmaður í steypuskála Fjarðaráls.

Maki: Marín Laufey Davíðsdóttir.

Börn: Nói, 1. árs, hundur.

Hvernig var árið 2015 fyrir þig? Það var ágætt, fullt af sætum sigrum í glímunni ásamt nokkrum svekkjandi töpum. Fyrir utan það var lífið bara nokkuð notarlegt hér fyrir austan.

Hvaða væntingar hefur þú fyrir árið 2016? Aðallega að það verði betra en síðasta ár.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Rjúpan á aðfangadag.

Hvað er best að gera á laugardagskvöldi? Laugardagskvöld eru lang best uppi á Fljótsdalsheiði á gæsaveiðum þegar það er í boði.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég á enga eina fyrirmynd en ég reyni alltaf að taka til fyrirmyndar góða eiginleika hjá fólki í kringum mig.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Það væri hentugt að hafa toppstykkið í það góðu lagi þannig að maður geti lært allt sem maður vill án þess að erfiða.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Vísindamaður.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Að koma á heimsfrið væri góð byrjun.

Hver er þinn helsti kostur? Ég næ upp í allt dótið í efstu hillunni.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég sef óþarflega mikið.

Mesta undur veraldar? Fjármál alheimsins.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég myndi gefa ýmisslegt fyrir að setjast niður með Morgan Freeman og spjalla um daginn og veginn.

Settir þú þér áramótaheit? Nei ekki frekar en vanalega.

Syngur þú í sturtu? Það kemur stundum fyrir, en þá er ég viss um að ég sé einn heima.

Draumastaður í heiminum? Ha Long Bay, Víetnam.

Duldir hæfileikar? Ég get haldið fyrir nefið með efri vörinni.

Myndir þú leggja Gretti sterka í glímu? Ekki spurning!

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.