Skip to main content

Austurland áfram á topplistunum: Kjörið fyrir langa helgi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jan 2016 11:38Uppfært 08. jan 2016 11:40

Austurland heldur áfram að komast á topplista bresku blaðanna yfir bestu áfangastaði ársins 2016. Eitt útbreiddasta fríblað Lundúna mælir með helgardvöl í fjórðungnum.


Sem fyrr er það beint flug sem ferðaskrifstofan Discover the World áformar að hefja næsta sumar sem kemur Austurlandi á kortið.

Í umfjöllun London Evening Standard er bent á að þetta sé fyrsta beina flugið milli Bretlands og hins síður þekkta Austurlands sem til þessa hafi aðeins verið aðgengilegt með innanlandsflugi eða langri bílferð úr Reykjavík. Með fluginu sé til dæmis löng helgi eystra orðin að raunhæfum valkosti.

Taldir eru upp nokkrir úrvalsstaðir til að skoða svo sem hið heillandi sjávarþorp Seyðisfjörður og Borgarfjörður þar sem álfadrottningin er sögð halda til. Dettifoss er einnig á listanum en því hefur verið haldið á lofti að flugið nýtist einnig til ferðaþjónustu á Norðurlandi.

London Evening Standard er fríblað í Lundúnaborg sem áætlað er að 1,8 milljón manna lesi á hverjum degi. Á lista þess yfir vænlega áfangastaði 2016 má einnig finna staði eins og Kambódíu, Nepal, Kosta Ríku, Bordeaux í í Frakklandi og Wales.

Austurland hefur einnig komist á topplista stórblaðanna The Guardian og Daily Telagraph auk þess sem í nýjasta hefti tímaritsins Wanderlust, sem kom út í gær, má finna ítarlega umfjöllun um Austurland.