David Tencer: Lít á það sem náð frá Guði að hafa verið valinn biskup

Í lok október tók séra David Tencer við embætti biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi en hann hefur í rúman áratug þjónað kaþólikkum á Austurlandi, síðustu átta ár frá klaustrinu á Kollaleiru. Hann segir skipunina hafa komið sér á óvart.


„Nei, ég átti ekki von á að verða biskup. En mér finnst það fínt. Ég lít á það sem náð frá Guði,“ segir David í viðtali síðasta tölublaði Austurgluggans.

David er alinn upp í Slóvakíu og kom fyrst til Íslands árið 2004 til að þjóna vaxandi söfnuði kaþólikka eystra í tengslum við stóriðjuframkvæmdirnar. Hann bjó fyrst í Reykjavík og lærði íslensku en kom reglulega austur og fluttist loks þangað 2007. Hann segist hafa unað sér vel eystra.

„Þegar ég kom til Reykjavíkur hugsaði ég með mér að hún væri eins og borgir í Slóvakíu nema þar vantaði trén. Þegar ég kom austur upplifði ég allt annað Ísland, líkara því sem ég hafði ímyndað mér út frá því sem ég hafði lesið og heyrt. Þarna voru litlir og rólegir bæir þar sem menn hugsuðu ekki um að læsa útidyrahurðinni því það var enginn á ferli sem vildi stela eða gera eitthvað slæmt.“

Munkarnir á Kollaleiru þjóna í Þorlákssókn sem nær frá Bakkafirði til Hornafjarðar. Hún er minnsta sókn kaþólikka hérlendis með um 600 sóknarbörn dreifð um svæðið sem kallar á miklar ferðir.

„Við prestarnir urðum að vera á ferðinni. Ég sagði að við værum alltaf á ferðinni til eilífs lífs. Ég segi stundum að ég hafi verið meira í bílnum en heima hjá mér og ef ég hefði verið einn þá hefði ég aldrei verið heima.“

Útnefningin kom á óvart

Það var því ef til vill viðeigandi að hann skyldi vera í bíltúr þegar kallið kom. „Þetta er ekki eins og í íslensku þjóðkirkjunni þar sem menn bjóða sig fram til biskups og svo er kosið. Ég vissi ekkert um þetta fyrr en sendiherra páfa hringdi og tilkynnti mér að páfinn hefði útnefnt mig.

Ég var þá á ferðinni með munka frá Slóvakíu sem komu til landsins til að hjálpa okkur við að byggja bjálkakirkjuna. Ég keyrði til Keflavíkur til að sækja þá og á leiðinni stoppuðum við á Höfn því þar er kirkja og við vorum að þjóna söfnuðinum.

Fram að því var ég búinn að vera að hugsa um hvort við hefðum gleymt einhverju í tengslum við bygginguna. Á Höfn hringdi hins vegar sendiherrann með tíðindin sem komu eins og þruma úr heiðskíru lofti, góð þruma.

Ég gat valið um hvort ég þæði útnefninguna eða hafnaði henni og fékk smá tíma til þess. Ég sagði já. Ég lít á biskupsútnefninguna sem náðargjöf frá Guði. Ég hefði líka verið sáttur við að vera munkur og prestur á Austurlandi til dauðadags.“

Ekki lært að vera biskup

David var vígður sem biskup þann 31. október síðastliðinn en flutti að austan skömmu áður. Hann reiknar samt áfram með að kraftur verði í safnaðarstarfinu eystra sem hann muni halda tengslum við. Beðið er eftir því að nýr munkur komi austur í hans stað.

Hann segist taka eitt skref í einu í nýju starfi. „Ég var fimm ár í prestaskóla til að læra að verða prestur. Síðan var ég tvö ár í nýliðaþjálfun til að verða munkur en ég var aldrei búinn undir að verða biskup.

Ég veit meira og minna um hvað starfið snýst en á eftir að kynnast því af raun. Ég reyni bara að leysa þau mál sem upp koma. Það er ekki eins og ég viti endilega hvernig allt eigi að verða. Það verður bara að vera eins og Guð vill!“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.