Bók Smára tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Bók Smára Geirssonar, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, er meðal þeirra bóka sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis.Bók Smára er afrakstur áralangrar rannsóknarvinnu Smára sem dregur fram ýmsar nýjar heimildir um hvalveiðar við Íslandsstrendur.
Í bókinni birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist uns þær voru bannaðar með lögum árið 1915. Gerð er grein fyrir veiðum Íslendinga en meginumfjöllunin er um hvalveiðar erlendra manna.
Að auki eru tilnefndar í flokkinum bækurnar Bókabörn eftir Dagnýju Kristjánsdóttur, Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914-1918 eftir Gunnar Þór Bjarnason, Vertu úlfur eftir Héðinn Unnsteinsson og Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson.
Dómnefnd skipuðu: Pétur Þorsteinn Óskarsson formaður nefndar, Aðalsteinn Ingólfsson og Hulda Proppé. Tilnefnt er í þremur flokkum og munu formenn dómnefnda velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki ásamt forsetaskipuðum formanni lokadómnefndar.
Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum um mánaðarmótin janúar/febrúar.