Austfirsk jólatré fáanleg á höfuðborgarsvæðinu

jolatre hafnarfjordurHægt verður að kaupa jólatré frá nokkrum skógræktendum á Fljótsdalshéraði í Hafnarfirði nú um helgina.

Það er orðinn árviss hluti af aðventunni hjá nokkrum skógarbændum á Héraði að senda jólatré til sölu í gróðrastöðinni Þöll í Hafnarfirði. Er þetta afrakstur af samstarfi Félags skógarbænda á Héraði við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, sem pantar tré og sér um söluna þar.

Að þessu sinni verður hægt að kaupa tré frá Ásgeirsstöðum, Brekkugerði, Víðilæk og Víðivöllum ytri II. Aðeins er þó um takmarkað magn að ræða og því rétt fyrir þá íbúa sunnan heiða sem vilja austfirsk tré að huga að innkaupum fyrr en seinna.

Jóhann F. Þórhallsson, skógarbóndi í Brekkugerði í Fljótsdal, segir þetta hafa gengið vel þau hartnær 10 ár sem verkefnið hefur staðið yfir.

„Þetta eru um 350 tré sem við sendum núna. Þau eru merkt hverjum bæ og hafa mér vitanlega alltaf selst upp. Núna er þetta mest stafafura og rauðgreni, en hefur oft líka verið blágreni.“


Hann segir að þetta sé ágætis viðbót við aðra veltu.

„Við erum vel sett með stafafuru hér fyrir austan og það er gott að ná smá tekjum inn með þessum hætti. Við höfum verið mjög ánægð með þetta og það er vonandi gagnkvæmt.“

Austfirðingar geta vitaskuld einnig nálgast jólatré úr heimabyggð, en þó nokkur hefð er orðin fyrir því að skógarbændur selji sjálfir tré sín á jólamarkaði sem gróðrastöðinn Barri hefur staðið fyrir undanfarin ár. Að þessu sinni fer hann fram 12. desember.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.