Borðar eitthvað hressilega óhollt ef hann vill gera vel við sig
Rithöfundurinn Smári Geirsson frá Norðfirði er í yfirheyrslu vikunnar, en nýútkomin bók hans, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, er meðal þeirra sem tilnefndar eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis.Bók Smára er afrakstur áralangrar rannsóknarvinnu Smára sem dregur fram ýmsar nýjar heimildir um hvalveiðar við Íslandsstrendur, en lesa má fréttina hér.
Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að sökkva sér ofan í hvalveiðarnar segir hann;
„Ég kom í Hellisfjörð og Mjóafjörð sem ungur strákur og sá leifar hvalstöðvanna þar. Þær voru afar forvitnilegar en ég átti erfitt með að afla svara við ýmsum spurningum sem vöknuðu í tengslum við þær. Síðan hefur hvalveiðisagan verið mér ofarlega í huga.
Öllum samfélögum er nauðsynlegt að hafa þekkingu á atvinnusögu sinni og hvalveiðisagan er merkilegur og áhugaverður þáttur austfirskrar og vestfirskrar atvinnusögu. Það skilur enginn samtímann sem ekki þekkir söguna.
Ég hef unnið að bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 í fimm ár en er búinn að leita heimilda um hvalveiðar frá því fyrir 1980.
Tilnefning til íslensku bókmenntaverðlaunanna kom mér í opna skjöldu en auðvitað þykir mér eins og flestum öðrum gott að fá klapp á bakið. Það er gott að vita af því að fólk kunni að meta þetta verk," segir Smári.
Fullt nafn: Smári Geirsson.
Aldur: Fæddur 1951 – frábær árgerð.
Starf: Rithöfundur, en starfaði við kennslu í Verkmenntaskóla Austurlands um ógnarlangt skeið.
Maki: María Jórunn Hafsteinsdóttir.
Börn: Tvö, Orri og Jóhanna.
Vínill eða geisladiskur? Það sem skiptir máli er efnið sem platan eða diskurinn geymir, ekki efnið sem platan eða diskurinn er úr.
Besta bók sem þú hefur lesið? Erfitt að gera upp á milli margra. Ég segi Salka Valka og Den moderne hvalfangsts historie í fjórum risabindum.
Besta spakmæli? Þolinmæðin þrautir vinnur allar.
Hvað borðar þú um jólin? Hnossgæti.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Fjórðungurinn er allur frábær og Norðfjörður er yndislegur á góðum sumardegi.
Mesta undur veraldar? Fæðing barnanna minna og síðan barnabarnanna.
Hver er þinn helsti kostur? Glaðværð og jafnlyndi.
Hver er þinn helsti ókostur? Skortur á lagni og útsjónarsemi á hinu verklega sviði.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika og glaðværð.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Öll verk sem byggja á lagni og útsjónarsemi samanber það sem að framan segir.
Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerir þú þá? Borða eitthvað hressilega óhollt.
Hvað þykir þér best við aðventuna og jólin? Fjölskyldusamvera.
Ertu með eitthvað sérstakt markmið fyrir komandi ár? Vera jákvæður og vinnusamur.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Það er gífurleg þörf á að auka jöfnuð.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Mánudagur því þá hefst ný og ögrandi vinnutörn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Sagnfræðingur.
Hefur þú borðað hval? Já, já, já.
Telur þú miklar líkur á því að þú hreppir bókmenntaverðlaunin? Ég vona að allar bækurnar fimm sem tilnefndar eru í flokki fræðirita eigi verðlaunin skilið – ætli þær eigi ekki allar einhvern möguleika.