Skip to main content

„Það skemmtilegasta sem ég hef gert með barninu mínu alla þess skólagöngu"

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2015 12:23Uppfært 07. des 2015 12:24

konungur ljonannaNíundi bekkur Nesskóla í Neskaupstað setti söngleikinn „Konungur ljónanna" á svið á dögunum og tókst einstaklega vel til.



Hefð hefur skapast fyrir því í Nesskóla að nemendur níunda bekkjar setji árlega upp leikverk til fjáröflunar fyrir skólaferðalag að vori. Verkefnið er á vegum skólans en unnið í samvinnu við foreldra, systkini og vini.

Leikstjóri var Guðrún Smáradóttir, Jón Hilmar Kárason sá um tónlistina, Jóhanna Fanney Hjálmarsdóttir um alla förðun og Guðjón Birgir Jóhannsson hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands um hljóð- og mynd.

Val á verki og skipun í hlutverk er heilmikið ferli. „Val á verki byggis ýmist á hugmyndum frá nemendum og foreldrum eða að ég geri tillögu að því hvað við gerum. Samsetning hópsins skiptir alltaf einhverju máli en við höfum svosem alltaf gert það sem okkur langar til, bara látið vaða," segir Guðrún.

„Ég leyfi unglingunum að skrá sig í þau verkefni sem þau hafa áhuga á, svo sem leik, söng, sviðsmynd, leikskrá, förðun, auglýsingar, miðasölu og bara allt sem þarf að gera svo er haldið af stað. Stundum höfum við söngprufur ef það eru margir sem vilja syngja en stundum, eins og núna þurfti ég að fá fleiri í söng en gáfu kost á sér og það gekk bara vel."

Hópurinn hittist fyrst í byrjun október og æfingar á sviði hófust mánuði síðar. „Sýningin var afar fjölmenn en alls komu 49 einstaklingar að henni, þar á meðal voru þrír pabbar og tveir fyrrverandi nemendur Nesskóla sem skipuðu hljómsveitinga og níu mömmur tóku þátt í kórsöng á sviðinu."

Guðrún segir um helming kostnaðar við skólaferðalagið safnist með verkefninu. „Það er alveg ótrúlegt. Ég held utan um fjáröflun níunda bekkjar og hef gert í nokkur ár, leita styrkja til uppsetningar svo aðgangseyrir rennur beint í ferðasjóð óskertur. Þetta er kostnaðarsamt og erum við afar þakklát okkar styrktaraðilum, án þeirra væri þetta ekki hægt."


Mikið hópefli fyrir nemendur og foreldra

Guðrún segir verkefni sem þetta vera mikið hópefli fyrir nemendur og foreldra, þar sem hópurinn verji löngum stundum saman.

„Foreldra kynnast bekkjarfélögum barna sinna og öðrum foreldrum en samvinnan kallar á þolinmæði, áhuga og um fram allt dugnað. Þetta árið er ég bæði foreldri og leikstjóri en það er í annað skiptið á sex árum sem ég gegni báðum hlutverkum. Það er mikil áskorun en þetta gekk allt stóráfallalaust.

Við sem að þessu komum segjum að ef það væri „písakönnun" í sköpun, þá fengju allir 10 fyrir þetta verkefni. Ég er afar þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt þar sem ég hef enga menntun í leiklist en þetta er sjötta uppsetning mín við skólann.

Sú setning sem hefur hljómað hvað mest síðustu daga er: „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert með barninu mínu alla þess skólagöngu."