![](/images/stories/news/2015/piparkokuhus_sveskjan.jpg)
Fékk hugljómun sem hún varð að láta framkvæma
Fjögur glæsileg piparkökuhús standa nú til sýnis í verslunarmiðstöðunni Molanum á Reyðarfirði. Piparkökuhúsin eru hluti af verkefni sem ungmenni úr félagsmiðstöðinni Zveskjunni á Reyðarfirði standa fyrir.Hver hópur gerði piparkökuhús og valdi sér góðgerðarmálefni til að styrkja. Ætlunin er að biðja gesti, gangandi og aðra velunnara að styrkja frábær málefni nú á aðventunni. Frábært framtak hjá þessum ungu Reyðfirðingum.
Sonja Einarsdóttir, forstöðumaður Zveskjunnar, segist hafa fengið hugljómun einn daginn varðandi verkefnið og fundið sig knúna til þess að láta það verða að veruleika.
„Við ætluðum alltaf að hafa piparkökuhúsakvöld, en ég kynnti hugmyndina fyrir þeim og þau voru mjög áhugasöm," segir Sonja, en það eru nemendur í 8.-10. bekk grunnskóla Reyðarfjarðar sem skreyttu húsin.
„Það eru litlir baukar við húsin þar sem fólk getur styrkt málefnin. Við ætlum okkur svo helst að vera á staðnum og kynna þetta betur, annað hvort einhvern seinnipartinn í vikunni eða um helgina."
Verkefnin sem nemendurnir völdu sér og hægt er að styrkja eru:
- Krabbameinsfélag Austfjarða
- Sjálfsbjörg - Landssamband fatlaðra
- Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna
- Söfnun fyrir hönd Guðna og Guðnýjar