Jón Svanur: Pabbi á heiðurinn af því að ég vissi gráspörinn

utsvar sigurlid 2013 screenshotLiðsmenn Útsvarsliðs Fjarðabyggðar gátu leyft sér að fagna í gærkvöldi eftir að liðið vann Reykjavík 98-56 í úrslitum spurningakeppninnar. Nokkur mögnuð svör duttu þeirra megin á lokasprettinum. 

„Við vissum að þetta myndi ráðast á stóru spurningunum í lokin og það gerði það. Við fengum 40 stig út úr þeim en þau bara tíu,“ segir Jón Svanur Jóhannsson sem myndar liðið ásamt Sigrúnu Birnu Björnsdóttur og Kjartani Braga Valgeirssyni.

Fjarðabyggð tók forustuna strax í hraðaspurningunum og var með um 10 stiga forskot að þeim loknum. Sú forusta hélst allt fram í stóru spurningarnar í lokin þar sem liðið innsiglaði sigurinn endanlega.

„Þetta var frábær keppni þar sem nánast allt gekk upp. Við komum ótrúlega vel stemmd til leiks,“ segir Jón.

Einn af hápunktum keppninnar var þegar Jón svaraði rétt spurningu um fuglategund sem á latnesku kallast passer domesticus. Vísbendingarnar voru annars takmarkaðar, mynd af fuglinum sem takmarkað hefur verið hérlendis.

Að loknum 15 sekúndna umhugsunarfresti lánaðist Jóni Svani einhvern vegin að grafa upp heitið gráspör.

„Pappi á þau stig. Ég var í heimsókn hjá honum um daginn og þá setti hann íslenska fuglavísinn á borðið hjá mér ef ég vildi blaða í gegnum hann fyrir úrslitin, sem ég gerði. Þar las ég um gráspörinn. Myndin truflaði mig en þetta datt inn á síðustu stundu.“

Að vinna Útsvar er meira en að mæta nokkrum sinnum í sjónvarpssal og svara nokkrum spurningum. Undirbúningurinn er þó nokkur, einkum fyrir úrslitakeppnina.

„Við erum ekki að læra neitt nýtt en við skerpum á því sem við kunnum. Við gluggum í bækur og þvælumst á netinu. Við spilum til dæmis töluvert af spurningaleikjum þar. Fyrst og fremst reynum við samt að taka þetta á gleðinni.“

Í lok keppninnar í gær kom fram að Sigrún Birna hefði framan af vetri haft meiri trú á að Fjarðabyggð gæti farið alla leið heldur en karlarnir tveir. Þeirra trú hefði kviknað eftir að liðið sló út hið sterka Garðabæjarlið í annarri umferð.

„Þetta var meira í gríni hjá henni en hún var alltaf pollróleg. Við erum miklir keppnismenn og auðvitað er alltaf markmiðið að vinna en við gerðum okkur engar sérstakar vonir um það.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.