Jólaverslunin: Fólk er djarfara í jólakjötinu en áður

Verslunarstjóri Nettó á Egilsstöðum segir kipp hafa komið í jólaverslun Austfirðinga, líkt og annarra landsmanna, eftir helgi. Alltaf séu einhverjir sem séu að fram á síðustu stundu en opið er í versluninni til klukkan eitt á aðfangadag.


„Ég býst við áframhaldi á geðveikinni sem byrjaði í gær og það verði brjálað til klukkan ellefu," sagði verslunarstjórinn Heiðar Róbert Birnuson þegar Austurfrétt ræddi við hann um klukkan þrjú á Þorláksmessu.

„Svo tekur aðfangadagur við. Þá er fólk að redda sér alls konar vörum, jafnvel hamborgarahryggnum, til klukkan eitt. Það eru alltaf einhverjir sem hafa gleymt sér eða voru ekkert að stressa sig því það var auglýst opið til eitt."

Það er þó ekki þar með sagt að skellt sé í lás klukkan eitt. „Það hefur aldrei tekist en kannski tuttugu mínútur yfir. Þá er hægt að fara að ganga frá og vera kominn heim til sín í jólahaldið um klukkan tvö."

Hann kveðst ánægður með jólaverslunina í ár og þróunin í búðinni á Egilsstöðum hefur verið svipuð og í öðrum Nettó verslunum á landinu. Ágæt sala var í síðustu viku, helgin aðeins rólegri en eftir hana hefur allt farið á fullt. Lengra er frá helginni fyrir jól til aðfangadags en verið hefur síðustu ár.

Heiðar segir helstu ásóknina síðustu opnunardagana vera í bækur og jólamat. Meiri spurn er eftir fjölbreyttara kjötúrvali en áður.

„Fólk er aðeins djarfara í kjötvalinu og sækir meira í framandi kjöt eins og kengúru, dádýr, gæsir, endur og svo seljum við mikið af kalkúnabringum fremur en hinn klassíska svínahamborgarhrygg. Söluaukningin er samt mest í tvíreyktu hangikjöt sem er mjög vinsælt núna."

Starfsfólk búðarinnar hefur síðustu vikur borið nælur frá félagi verslunarmanna þar sem viðskiptavinir eru hvattir til að koma fram við afgreiðslufólk af virðingu.

„Þær eru til að hvetja fólk til að taka hlutunum með ró og brosa. Það verða margir stressaðir í jólatörninni og taka neikvæðnina út á röngu fólki. Við höfum lent í að öskrað hafi verið á afgreiðslufólk fyrir engar sakir. Þess vegna eru þessar nælur skemmtilegar og fólkið vill bera þær."

Verslanir Nettó eru opnar fram á kvöld fyrir jól svo það er lítill tími aflögu fyrir verslunarstjórann í eigin jólaundirbúning.

„Ég á svo góða konu að ég þarf bara að kaupa eina gjöf og það er handa henni. Ég reyni að mæta og gera mig tilbúinn og hjálpa til á síðustu metrunum. Síðan taka við tveir rólegir dagar áður en búðin opnar á ný á sunnudag."

Kristbjörg Halldórsdóttir, umsjónarmaður kjötborðsins ásamt Heiðari í jólaösinni í dag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.