![](/images/stories/news/2015/djupivogur.jpg)
Austurland á lista Telegraph yfir bestu áfangastaðina 2016
Austurland er einn af 20 áfangastöðum sem rata á lista breska dagblaðsins Daily Telegraph yfir bestu staðina til að heimsækja á næsta ári.Það er beint flug ferðaskrifstofunnar Discover the World sem opnar aðgengið að Austurlandi og þar með heimi lítt kannaðra náttúruundra að mati blaðsins.
Áhugasömum er bent á gönguferðir í litríkum fjöllum Borgarfjarðar, svo sem Stórurð, þar sem feta megi í fótspor álfana.
Seyðisfjörður sé staður heimsborgaranna þar sem tekið sé á móti gestum eins og heimamönnum og dást megi að timburhúsum í sterkum litum og heimsækja hljóðlistaverk.
Syðst í fjórðungnum sé kjörið að skoða Djúpavog þar sem sjófuglar og endur séu langt um fleiri heldur en íbúar og gestir.
Í franska bænum Fáskrúðsfirði sé hægt að komast í ferska fiskrétti og kynnast útgerðarsögunni og skoða fossa eins og Flugufoss.
Síðast en ekki síst opna Austfirðir bakdyr að hálendi Íslands þar sem boðið sé upp á jeppaferðir til að skoða íshellana í Kverkfjöllum eða fara upp á Vatnajökul til að dást að útsýninu.
Fjöldi heillandi staða er á lista Telegraph svo sem Síberíuhraðlestin, Perú, pílagrímaganga í Róm, japanska eyjan Hokkaido, sigling meðfram strandlengju Ástralíu og þjóðgarðar Bandaríkjanna.