John Grant, Ásgeir Trausti, Bjartmar og Mannakorn á Bræðslunni

braedslan_2012_0066_web.jpgBandaríski tónlistarmaðurinn og Íslandsvinurinn John Grant verður aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði eystri í sumar. Bjartmar Guðlaugsson, Ásgeir Trausti og Mannakorn fullkomna dagskrána.

Þetta var tilkynnt í beinni útsendingu í Popplandi Rásar 2 í dag. Grant vakti heimsathygli árið 2010 með plötu sinni Queen of Denmark. Í mars gaf hann svo út nýja plötu, Pale Green Ghost, sem tekin er upp hérlendis.

Grant er farinn í heimsreisu til að fylgja plötunni eftir með íslenskum tónlistarmönnum. Þeirra á meðal er austfirski trommuleikarinn Kristinn Snær Agnarsson. Bandið ætlar hins vegar að gefa sér tíma til að koma heim í lok júlí til að spila á Bræðslunni.

Frægðarsól Ásgeirs Trausta hefur risið hratt síðan hann gaf út plötuna Dýrð í dauðaþögn síðasta haust. Í viðtali nýverið sagði hann hafa komið sér á óvart, þegar hann hefði lagt af stað í útgáfuna hefði hann sætt sig við að selja hundrað eintök heima á Hvammstanga.

Ásgeir Trausti kom fram á Bræðslunni í fyrra, þá með hljómsveitinni Lovely Lion, þar sem hann spilaði á gítar.

Bjartmar Guðlaugsson fagnaði í fyrra sextíu ára afmæli sínu með tónleikum og safnplötunni Sumarliði, hippinn og allir hinir. Pálmi Gunnarsson og Magnús Eiríksson eru burðarásirnar í Mannakorni. Níunda plata sveitarinnar með frumsömdum lögum, Í blómabrekkunni, kom út í fyrra.

Hefð er fyrir að efnilegar hljómsveitir komi fram á Bræðslunni. Eftir er að staðfesta slíkar sveitir. Þá hefur enn ekkert verið gefið út um hliðardagskrá hátíðarinnar dagana á undan.

Þetta er í níunda sinn sem Bræðslan er haldin. Aðalkvöld hátíðarinnar að þessu sinni verður 27. júlí. Miðasala hefst 9. maí.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.