Kjörfundur í Fljótsdal: Flestir koma alltaf á sama tíma

fljotsdalur_kjorstjorn.jpgKjörsókn í Fljótsdalshreppi var klukkustund á undan því sem hún yfirleitt er framan af degi. Þar er kosningakaffi á boðstólum í Végarði þá tíu tíma sem kjörfundur stendur yfir.

Klukkan fjögur höfðu 51,43% kosið á kjörstað. Sjötíu voru skráðir á kjörskrá í upphafi dags en tveir bættust við „sem vildu ekki vera á Egilsstöðum,“ að sögn kjörstjórnar.

Kjörsóknin er þannig klukkustund fyrr á ferðinni heldur en í síðustu kosningum. „Menn koma yfirleitt gjarnan á svipuðum tíma. Þið eruð til dæmis yfirleitt á þessum tíma,“ sagði Jósef Valgarð við kjósendur sem voru þar um klukkan fimm.

Í kjörstjórninni sitja sóknarpresturinn á Valþjófsstað sr. Lára G. Oddsdóttir, Sigríður Björnsdóttir á Droplaugarstöðum og Jósef Valgarð Þorvaldsson. Þau ýmist prjónuðu eða lásu stóðhestabækling á milli þess sem kjósendur litu við.

Kjörfundur hófst klukkan tólf og er auglýstur til tíu í kvöld. Heimilt er þó að loka þegar kjördeildin hefur verið opin í fimm tíman og enginn mætt í hálftíma.

Takmarkað er hversu nákvæmt bókhald kjörstjórnin má halda um mætingu manna. „Við fengum skriflegt leyfi fyrir nokkrum árum. Við megum hringja og segja við menn: „Við lokum eftir hálftíma, ætlarðu að koma og kjósa?““ útskýrir séra Lára, sem er formaður kjörstjórnarinnar.

Lögreglan kemur síðan eftir að kjörfundi lýkur og sækir kjörkassann í þessari fámennustu aðalkjördeild á Austurlandi. Atkvæðin eru talin á Akureyri.
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.