Skip to main content

Árbókarferð FÍ um Norðausturland

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. maí 2013 22:31Uppfært 15. maí 2013 22:37

vopnafjordurÁrbók Ferðafélags Íslands 2013 fjallar að þessu sinni um Vopnafjörð, Bakkafjörð og Langanes, Þistilfjörð, Melrakkasléttu, Núpasveit, Öxarfjörð og Hólsfjöll. Afréttum og fjalllendi viðkomandi byggðarlaga er einnig lýst í árbókinni. Höfundur árbókarinnar er Hjörleifur Guttormsson.


Efnt verður til árbókarferðar helgina 22.–23. júní nk. og verður höfundurinn fararstjóri. 

Þetta er 2 daga rútuferð frá Egilsstöðum norður um Vopnafjörð og árbókarsvæðið allt vestur í Öxarfjörð, upp á Hólsfjöll og til baka um þjóðveg 1 í Egilsstaði.

Fyrri daginn er farið frá Egilsstöðum eftir komu morgunflugs frá Reykjavík og ekið um Hellisheiði. Áning og létt ganga á völdum stöðum í Jökulsárhlíð, Vopnafirði og Bakkafirði.

Gisting á Ytra Lóni á Langanesi. Árbókarkynning og spjall um kvöldið.

Síðari daginn er skroppið út að Heiði á Langanesi, síðan um Þórshöfn, vestur Þistilfjörð, til Raufarhafnar og út fyrir Sléttu. Komið við á Kópaskeri og stansað síðdegis í Ásbyrgi. Upp með Jökulsá að austan að Dettifossi. Viðkoma á Grímsstöðum og Biskupshálsi og síðan sem leið liggur í Egilsstaði fyrir síðasta flug suður.

Verð í ferðina er kr. 15.000 / 18.000 ( miðað við brottför frá Egilsstöðum ). Innifalið er rúta, gisting og fararstjórn. Tilboð í flug með Flugfélagi Íslands Reykjavík – Egilsstaðir – Reykjavík er kr. 26.300.

Fólk hafi með sér svefnpoka og nestisbita fyrir báða dagana, en kostur gefst til að kaupa hressingu á Vopnafirði, og kvöldverð og morgunverð á Ytra-Lóni. Hugsanlega léttan miðdegisverð á Hótel Norðurljósum á Raufarhöfn.

Ferðin er öllum opin. Nánari upplýsingar og skráning í síma 568 2533 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. í síðasta lagi 20. maí.