Háskólalestin heimsækir Fjarðabyggð
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. maí 2013 13:31 • Uppfært 26. maí 2013 23:30
Háskólalest Háskóla Íslands er nú stödd á síðasta áfangastað sínum þetta vorið, Fjarðabyggð. Þessa stundina sækja nemendur í elstu bekkjum grunnskóla í Neskaupstað, á Stöðvarfirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði valin námskeið í Háskóla unga fólksins í grunnskólanum í Neskaupstað.
Þar stendur valið á milli næringarfræði, blaða- og fréttamennsku, japönsku, efnafræði, jarðfræði, stjörnufræði, tómstunda- og félagsmálafræði og kynjafræði.
Á morgun, laugardaginn 25. maí, verður svo efnt til vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna í félagsheimilinu og grunnskólanum á Reyðarfirði í samvinnu við heimamenn.
Í félagsheimilinu verður meðal annars boðið upp á sýnitilraunir, furðuspegla og syngjandi skál, japanskt mál og menningu, unga fréttamenn að störfum, mælingar og pælingar og undur himins og jarðar.
Þá sýnir hið landsfræga Sprengjugengi listir sínar kl. 12.30 og 14.30. Enn fremur verða sýningar í Stjörnutjaldinu í grunnskólanum á 30 mínútna fresti frá kl. 13.
Dagskrá Háskólalestarinnar er öllum opin, aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Háskólalestinni var hleypt af stokkunum á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Þá var tímamótunum fagnað með viðamikilli vísindadagskrá á níu stöðum á landinu og voru viðtökurnar með eindæmum góðar.
Lestin heimsótti fjóra staði í fyrra og lagði sem fyrr áherslu á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og litríka dagskrá fyrir alla fjölskylduna.