Hringferð Húna II lokið: Elli P. verðlaunaður á Breiðdalsvík
Skipverjar á Húna II, sem voru í hringferð nýlega, komu við á Breiðdalsvík og verðlaunuðu þar Elís Pétur Sigurðsson fyrir framlag hans til fræðslumála í starfi við útgerðina undanfarin ár.Trébátarnir Húni II og Knörrinn fóru saman í hringferðina sem farin var í tilefni 50 ára afmælis bátsins.. Á Austfjörðum var stoppað á Vopnafirði, Neskaupstað og Eskifirði auk Breiðdalsvíkur.
Þar var Elís Pétur, sem heimamenn kalla Ella P., verðlaunaður fyrir samstarf í fræðslumálum. Hann hefur undanfarin sex ár unnið með útgerð skipsins í verkefni fyrir nemendur í 6. bekk í verkefni sem kallast „Frá öngli í maga“ og gengur út á fræðslu um veiðar og vinnslu. Elli var að hætta því starfi og fékk að skilnaði viðurkenninguna.
Húni II 130 tonna eikarbátur, smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963. Hollvinir Húna II sjá um reksturinn. Báturinn er eini eikarbáturinn af þessari stærð sem til er óbreyttur á Íslandi.
Eftir 30 ár við fiskveiðar stóð til að setja hann á áramótabrennu en var settur aftur á skrá og gerður út sem hvalaskoðunarbátur.
Báturinn er í dag notaður til fræðslu og skemmtunar. Sjá nánar á http://huni.muna.is
Myndir: Bylgja Borgþórsdóttir