Skip to main content

Tíu ár frá útskriftinni úr VA: Maður hringdi inn á internetið í gegnum módem

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jún 2013 23:48Uppfært 03. jún 2013 23:50

va utskrift 13 web willgeirHversu illa sem mönnum er við að horfast í augu við það þá þróast tæknin fljótt. Við útskrift úr Verkmenntaskóla Austurlands fór fyrrverandi nemandi yfir hvernig umhverfið þegar hann útskrifaðist fyrir tíu árum.


„Ég ætla ekki að halda því fram að heimurinn hafi stökkbreyst síðan ég útskrifaðist en þó hefur margt nýtt komið fram,“ Jón Einar Jónsson sem árið 2003 útskrifaðist af náttúrufræðibraut.

Vissulega var skólinn hálf framúrstefnulegur þar sem þráðlaust net innanhúss var að ryðja sér til rúms.

„Allan þann tíma sem ég var í framhaldsskóla og vildi fara á internetið heima hjá mér, hringdi maður inn á internetið í gegnum svokallað módem og beið þolinmóður meðan módemið ískraði og gargaði á meðan tölvan náði sambandi við internetið. Í dag held ég að enginn fari á internetið öðruvísi en í gegnum þráðlausa tenginu sem er alltaf opin.“

Flestir voru líka komnir með farsíma en símarnir voru með skjá sem sýndu svart letur og réðu ekki við mikið flóknari leiki en „snake.“

„Hvað ætli það séu margir með „snake“ í farsímanum sínum í dag? Get svo sem ekki sagt að ég sakni leiksins, enda eru snjallsímarnir miklu flottari... þeir eru meira að segja með litaskjá og líka hægt að komast á internetið í snjallsímunum.“

Jón Einar fór síðan í Háskóla Íslands og lærði jarðeðlisfræði. Hann segir reynsluna úr VA hafa nýst sér vel í leik og starfi. Mikilvægast sé að hafa gaman af því sem menn geri.

Ekki var annað að heyra á Jóni Einari en hann hefði skemmt sér vel í VA þar sem hann sat meðal annars í nemendaráði. Útskriftarveturinn náði skólinn þeim árangri að komast í undanúrslit spurningakeppninnar Gettu betur.

Þá var honum líka sérstaklega minnisstætt þvottabalarall sem nemendaráðið stóð fyrir.

„Þvottabalarallið fólst í því að sitja í þvottabala og bruna niður brekkuna vestan við skólann. Þátttakan fór fram úr öllum vonum og kláruðust allir þvottabalar í verslunum í Neskaupstað daginn sem hið árlega þvottabalarall var haldið. Ég veit reyndar ekki til þess að hið árlega þvottabalarall hafi nokkurn tíman verið haldið fyrr né síðar en þetta eina skipti.“

Útskriftarnemar úr VA 2013. Mynd: William Geir Þorsteinsson