Skip to main content

Rímur og rokk á Vopnafirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2013 21:19Uppfært 05. jún 2013 21:21

vopnafjordurÞessa dagana fer fram listasmiðjan Rímur og rokk á Vopnafirði þar sem sjö íslensk og sex norsk ungmenni á aldrinum 15-16 ára starfa undir leiðsögn Steindórs Andersen kvæðamanns, Hilmars Arnar Hilmarssonar tónskálds, Baldvins Eyjólfssonar tónlistarkennara og Sigrid Randers-Pehrson þjóðlagasöngkonu.


Rímur og rokk er samstarfsverkefni milli Kaupvangs á Vopnafirði, Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Menningarráðs Vesterålen Regienråd í Noregi. Frumkvæði að verkefninu hafði Sigríður Dóra Sverrisdóttir á Vopnafirði.

Markmið verkefnisins er að viðhalda menningararfleifðinni sem felst í rímum og þjóðlögum ásamt því að þróa áfram þessi fornu kvæðaform með margvíslegri tónlist við ýmis kvæðalög íslendinga og Norðmanna og flétta þessar tvær menningararfleifðir saman.

Afrakstur listasmiðjunnar Rímur og rokk verður fluttur í Félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði fimmtudaginn 6. júní kl. 20:00. Aðgangseyrir er 1.000 kr.