Skip to main content

Sigurvegari í belgjaslag: Þetta snýst um að reyna að þrauka þótt búið sé að berja mann

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jún 2013 23:59Uppfært 09. jún 2013 00:14

sjomannadagur borgarfjordur 0400 webÁsgrímur Ingi Arngrímsson, veitingamaður í Fjarðaborg, fagnaði sigri í belgjaslag á Borgarfirði eystra á sjómannadaginn. Borgfirðingar hömpuðu honum þar sem ósigrandi belgjaslagsmeistara en Ásgrímur Ingi segir það orðum aukið.


„Það eru sögusagnir um að ég hafi aldrei tapað en það er ekki rétt. Skafti heitinn Atlason fór mjög nærri því að rota mig og rotaði reyndar annan. En svona verður goðsögnin stærri en sannleikurinn,“ sagði Ásgrímur Ingi í samtali við Austurfrétt.

Ásgrímur fagnaði sigri í belgjaslagnum þrjú ár í röð á tíunda áratugnum en hefur ekki keppt síðan. „Ég virðist geta leitað aftur í það sem ég kunni án þess að spögulera mikið en kannski er þetta líka heppni og dagsformið.“

Hann vill ekki gefa of mikið um hver sé lykillinn að því að þrauka í belgjaslagnum. „Það er pínu leyndarmál,“ segir hann en bætir við:

„Þú verður að hafa þyngdarpunktinn nógu neðarlega. Maður er of berskjaldaður ef maður situr uppi. Svo er bara að reyna að þrauka þótt búið sé að berja mann, toga í alla mögulega útlimi og klæða mann úr fötunum.

Það er öllum brögðum beitt. Þetta verður sérstaklega brútal og frumstætt þegar menn hafa misst belginn. Þá er komið út í grímulaus slagsmál.“

Ásgrímur Ingi slapp þurr frá slagnum en fagnaði sigrinum með því að fara heljarstökk fram af plankanum og ofan í höfnina. „Ég er ekki svona góður því ég er hræddur við vatnið. Ég stökk að minnsta kosti af sjálfdáðum – en mikið djöfull var sjórinn kaldur!“

sjomannadagur borgarfjordur 0401 websjomannadagur borgarfjordur 0402 web