Vel tekið á móti skólaskútu franska hersins á Fáskrúðsfirði: Myndir
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. jún 2013 16:36 • Uppfært 09. jún 2013 16:41
Vel var tekið á móti Étoile, skólaskipi franska hersins er það lagðist að bryggju á Fáskrúðsfirði á föstudag. Var það í fyrsta sinn í ein 100 ár sem frönsk skúta siglir þöndum seglum inn Fáskrúðsfjörðinn.
Étoile, eða Stjarna, er sögufræg seglskúta í eigu franska sjóhersins. Hún var sjósett árið 1932 og er óaðskiljanleg frá systur sinni, Belle Poule, en þessar tvær skútur eru eftirlíkingar af þorskveiðiskútunum frá Paimpol sem fór til veiða við strendur Íslands allt til ársins 1935.
Í styrjöldinni þjónaði Étoile frönsku andspyrnuhreyfingunni og flaggar franska þjóðfánanum með Lorraine krossi í virðingarskyni við þær dáðir sem unnar voru um borð í þágu lands og þjóðar.
Þessi gerð af bátum hefur þótt með fullkomnari hafsskipum. Bátslögun og lengd kjalar gerir skipið í senn stöðugt og hraðskreitt, en þessar bretónsku skútur geta náð 7 til 10 hnúta hraða í góðum byr.
Gunnar Jónsson, aðstoðarbæjarstjóri, María Guðrún Jónasdóttir, upplýsingafulltrúi og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi, tóku á móti skútunni fyrir hönd Fjarðabyggðar. Markmið heimsóknarinnar er að treysta gömul vináttubönd frönsku þjóðarinnar við landshlutann og minnast þeirra frönsku sjómanna sem áttu ekki afturkvæmt af Íslandsmiðum.
Í áhöfn skipsins eru 25 einstaklingar, þar af ein kona. Samkomulagið um borð verður að vera gott því plássið er lítið neðan þilja. Skipverjar hafast við í litum kojum en yfirmenn hafa einkaherbergi með aðgengi að baði. Hætt er þó við að mörgum þættu það samt mjög litlar vistarverur.
Ferðin er ein af þeim síðustu undir stjórn Vincent Largeteau skipherra en hann lætur af störfum í júlí. Venjan er að menn séu þrjú ár á skipinu. Í samtali við gesti sína um borð sagði Vincent það venju að menn væru sjóveikir fyrstu tvo dagana um borð en eftir það næðu menn sér.
Farið var með skipverja vítt og breitt um Fjarðabyggð í tilefni heimsóknar þeirra. Franski sendiherrann, Marc Bouteiller, heimsótti sveitarfélagið ásamt eiginkonu sinni og Charles Orlianges, ofursta og varnarmálafulltrúa við franska sendiráðið í Kaupmannahöfn.
Í gær var minningarathöfn í franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði og almenningi var boðið að skoða skipið í morgun. Það siglir á brott í fyrramálið.
Um borð eru tvær vélar en þær eru aðeins notaðar í undantekningartilfellum til stuðnings seglunum.















