Skip to main content

Fara í tónleikaferð til Jakútíu: Kjuregej snýr heim

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jún 2013 23:38Uppfært 10. jún 2013 23:39

braedslan 2011 0133 webSöngkonan Kjuregej ásamt tónlistarmönnunum Charles Ross og Halldóri Warén leggja á fimmtudag upp í tónleikaferð til Rússlands. Förinni er heitið á æskuslóðir söngkonunnar í Jakútíu í Síberíu.


„Það hefur verið draumur hennar í mörg ár að fara þarna upp til Jakútíu, lengst fyrir norðan Kína og syngja fyrir fólkið sitt,“ segir Halldór en hann og Charles búa og starfa á Fljótsdalshéraði þar sem platan varð til.

„Við erum að fara að spila tónlistina þeirra. Við getum hugsað okkur Íslending sem flytur til Ástralíu man kannski betur lögin sem fólkið söng þá 50 árum síðar heldur en heimamenn.

Út á það gengur diskurinn. Þetta eru þjóðlög sem jafnvel Jakútar eru að gleyma.“

Tónlistarverðlaunin gáfu nýtt tilefni

Tríóið gerði saman plötu sem kom út seint haustið 2011 þar sem Kjuregej tók þjóðlög af sínum heimaslóðum. Platan hlaut sérstök verðlaun á íslensku tónlistarverðlaununum fyrir árið 2012 sem afhent voru í febrúar. „Þar með var aftur komið tilefni til að fara út.“

Það var í september sem hópurinn ákvað að fara í ferðina. Veturinn hefur farið í að safna styrkjum meðal annars á hópfjármögnunarvefnum Indiegogo.

Aldur söngkonunnar, en hún er orðin 75 ára, hefur nokkuð þvælst fyrir í styrkjakerfinu sem fyrst og fremst virðist ætlað til að styrkja unga og efnilega listamenn.

Tónlistarverðlaunin vöktu hins vegar mikla athygli á disknum. Hann hefur nú selst í 500 einstökum sem Halldór segir „fínt“ fyrir íslenskan markað. „Okkur langar að fara út með diskinn og kynna hann fyrir Rússum.“

Spila í sendiráðinu á 17. júní

Fyrstu tónleikarnir verða 15. júní á sumarhátíð Jakúta í Moskvu og tveimur dögum síðar spilar tríóið í íslenska sendiráðinu á þjóðhátíðardaginn. Þann 19. júní verður flogið til Jakútíu og næstu daga á eftir verða fimm tónleikar. Hópurinn kemur heim í lok júní.

„Upphaflega vorum við að hugsa um að með Síberíuhraðlestinni en sú reisa tekur sjö daga – aðra leiðina.“

Með í för verður kvikmyndagerðarmaðurinn Ari Alexander, sonur Kjuregej, en hann vinnur að heimildamynd um ferðina.