Sjö erlendar sveitir á Eistnaflugi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. jún 2013 14:20 • Uppfært 15. jún 2013 14:22
Tónlistarhátíðin Eistnaflug verður haldin í níunda sinn í sumar, dagana 11.-13. júlí, í Egilsbúð. Alls mun 41 hljómsveit stíga á stokk og þar af sjö erlendar. Markmið Eistnaflugs er að bjóða ferska og fjölbreytta dagskrá rokktónlistar sem spannar allt frá indí rokki yfir í þungan metal. Áhersla er lögð á að kynna það besta í íslensku rokki hverju sinni í bland við áhugaverðar erlendar sveitir.
Meðal íslenskra hljómsveita koma fram Sólstafir, Skálmöld, Brain Police, Dimma, Legend, Muck, Kontinuum, The Vintage Caravan, Angist, Ophidian I, Singapore Sling, Plastic Gods, Endless Dark, Agent Fresco, Momentum, Ojba Rasta, Saktmóðigur, AMFJ, Innvortis, Logn, Norn og Morðingjarnir.
Fremst í flokki erlendra hljómsveita er Red Fang frá Bandaríkjunum sem mun enda Evróputúr sinn á Neskaupstað. Þá munu Íslandsvinirnir í The Psyke Project, Helhorse og Whorls frá Danmörku sækja hátíðina ásamt thrash metal sveitinni Contradiction frá Þýskalandi. Sigurvegarar Wacken Metal Battle 2012, Hamferð, frá Færeyjum mun einnig mæta ásamt hljómsveitinni Earth Divide.
Tónlistarhátíðin Eistnaflug hefur farið vel fram síðustu ár og vaxið með hverju árinu. Alls sækja nú um 1400 manns hátíðina ár hvert sem slagar hátt í íbúafjölda Neskaupsstaðar (1451 íbúar). Þá hefur hátíðin jafnframt virkað sem stökkpallur fyrir þær íslensku hljómsveitir sem þar koma fram en fjöldi erlendra blaðamanna sýnir hátíðinni áhuga og ferðast til Íslands í þeim tilgangi að fjalla um hátíðina og efnilegar sveitir sem þar stíga á svið. Í ár verða m.a. blaðamenn frá bresku blöðunum Metal Hammer, Terrorizer, Rock n Rolla og Iron Fist og Þýsku útgáfu Metal Hammer.
Í ár verður breytt til og bætt við tónleikum fyrir alla aldurshópa miðvikudaginn 10. júlí klukkan 19:00. Hljómsveitirnar Skálmöld, Sólstafir og Dimma koma fram og kostar 2000 kr. Miðasala fer fram í Egilsbúð.
Upplýsingar um hátíðina má finna á www.eistnaflug.is og á Facebook síðu hátíðarinnar.
Miðasala fer fram á Midi.is og er miðaverð 9900 kr.