Nemendur í vinnuskólanum í verknámsviku í VA
Um fimmtíu nemendur sem luku níunda bekk grunnskóla í Fjarðabyggð í vor og voru skráðir í Vinnuskóla sveitarfélagsins hófu vinnuna á viku kynningu á verknámi í Verkmenntaskóla Austurlands. Markmið verkefnisins er að auka áhuga á iðn- og tækninámi.Vikan er liður í kynningu á starfsemi skólans en vonast er til að með framtaki sem þessu aukist aðsókn í iðn- og tækninám á komandi árum. Hugmyndin kviknaði í kynnisferð starfsfólks VA til Svíþjóðar í fyrravor en menn dáðust að því hvernig staðið er að kynningu verknáms þarlendis. Framtak sem þetta mun vera eindæmi á Íslandi.
Nemendurnir störfuðu í fjórum deildum skólans: málm-, tré-, hár- og rafdeildum undir leiðsögn kennaranna. Á verkstæðunum sköpuðu þeir hluti svo sem ostabakka úr tré og snaga úr málmi sem þeir eiga til minninga. Síðasti dagurinn var uppskerudagur þar sem foreldrum og velunnurum var boðið.
Verkmenntaskólinn lagði til húsnæðið, Fjarðabyggð greiddi laun vinnuskólanemanna og sjö fyrirtæki í sveitarfélaginu laun kennaranna, efniskostnað og ferðalög til og frá skólanum.
Austurfrétt hitti nokkra nemendur að máli sem tóku þátt í vikunni á meðan henni stóð. Þeir sögðust ánægðir með framtakið og að þeir hefðu fengið spennandi viðfangsefni.