Einn Austfirðingur meðal afreksnema sem hlutu styrki til náms við Háskóla Íslands
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. jún 2013 18:47 • Uppfært 22. jún 2013 18:49
Einn nemandi úr austfirskum framhaldsskóla var í hópi 24 afburðanemenda úr framhaldsskólum sem tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands í vikunni.
Það var Svanhvít Sigurðardóttir Michelsen frá Fáskrúðsfirði en hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum í vor eftir þriggja ára nám og varð dúx skólans. Svanhvít er 19 ára gömul og starfaði sem varaformaður og ritari nemendafélagsins í einn vetur.
Hver afreksnemandi fær 300.000 króna styrk auk þess sem greitt er skráningargjald fyrir hann í skólann, 60.000 krónur. Svanhvít stefnir á nám í lyfjafræði í haust.
Við val á styrkþegum er einkum litið til árangurs í námi einni einnig til annarra þátta svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.