Friðarhlauparar á ferð um Austurland

fridarhlaup egs 0024 webSautján manna hópur frá ýmsum þjóðlöndum hleypur nú um Ísland með logandi friðarkyndil. Hópurinn er þessa dagana á ferð um Austurland og hefur skipt sér í tvo minni hópa til að geta komið við í sem flestum byggðarlögum.

Hóparnir lögðu af stað frá Höfn í morgun. Annar hópurinn fór fjarðaleiðina og kom við á Djúpavogi og Breiðdalsvík en hinn fór um Öxi til Egilsstaða.

Á öllum stöðum hafa heimakrakkar hlaupið með kyndilberum síðasta spölinn. Á Egilsstöðum voru það iðkendur úr frjálsíþróttadeild Hattar.

Sömuleiðs hefur verið plantað friðartré á stöðunum. Tekið var á móti hlaupurunum og tréð gróðursett í Skjólgarði sem er á bakvið pósthúsið á Egilsstöðum.

Fjarðahópurinn heldur áfram á morgun í gegnum Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Reyðarfjörð og út í Neskaupstað en Héraðshópurinn fer á Seyðisfjörð.

Föstudagurinn verður sá síðasti á Austurlandi. Annar hópurinn hleypur upp á Möðrudalsöræfi en hinn á Vopnafjörð.

Friðarhlaupið var fyrst hlaupið árið 1987. Það er vanalega hlaupið hérlendis á tveggja ára fresti en umfangið er mismikið. Hlaupið í ár er óvenju veglegt því í raun er verið að fagna 25 ára afmæli þess.

Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Það er kennt við stofnandann, indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy.

Mikil áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna, sem er skipulögð í samstarfi við íþrótta- og ungmennahreyfingar á hverjum stað.

Þetta verður í 20. sinn sem hlaupið er á Íslandi. Plantað verður um 70 friðartrjám víðsvegar um land í tengslum við Friðarhlaupið.

Hlaupið er með friðarkyndilinn á milli byggða til að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði sem hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.